13.02.1928
Neðri deild: 21. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Sigurður Eggerz:

Mjer skildist á hv. þm. Borgf., að hann liti svo á, að stefnubreyting hefði orðið hjá mjer í skólamálunum, er jeg mintist á þau í sambandi við það mál, er hjer liggur fyrir. (PO: Hv. þm. V.-Ísf. þótti það líka). Jeg heyrði ekki ræðu hans, en jeg vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp nokkur orð úr Alþt. 1925:

„Jeg er auk þess sannfærður um það, að lærisveinar í mörgum skólum eru látnir sitja of lengi í tímum; þreytan er þeim einnig að óliði. Og einmitt af því, að jeg veit af þessu hjá kennurum og lærisveinum, þá er jeg altaf að prjedika leikfimi, sund og aðrar íþróttir, af því að þarna eru meðulin á móti þreytunni“. (PO: Jeg vitnaði í umræður um barnafræðsluna). Þetta sannar, að jeg stend á sama grundvelli og áður í þessu efni, og er altaf gott að geta vitnað í Alþt., þegar mönnum er að ástæðulausu brugðið um skoðanaskifti. Því meir sem jeg hefi um það hugsað, því betur hefi jeg sjeð, hve mikla þýðingu íþróttir hafa fyrir líkamlega og andlega heilbrigði þjóðarinnar. Jeg tel það ekkert aðalatriði, að menn skari fram úr í íþróttum, þótt það sje ánægjulegt og þjóðinni til sóma að hljóta frægðarorð af íþróttamönnum sínum, eins og hún hefir hlotið af sumum þeirra. En jeg legg meiri áherslu á það, að skilningur vaxi á því, hve mikla þýðingu íþróttir hafa fyrir þroska þjóðarinnar. Og á meðal þeirra íþrótta má sannarlega telja sundið, sem auk þess að vera heilsusamleg og fögur íþrótt er beinlínis öryggisráðstöfun til að bjarga lífi manna. Jeg þarf ekki að minnast hjer á alla þá sorgaratburði, þar sem sundið hefði getað komið að haldi, en get látið nægja að geta um nýafstaðinn atburð, þar sem sundið bjargaði manni frá bráðum bana. Þar sem jeg gat þess í sambandi við skólamálin, að menn væru látnir sitja of lengi í tímum, átti jeg aðallega við hina æðri skóla, eins og t. d. mentaskólann, þar sem nemendur verða að sitja í 6 tíma á skólabekknum daglega. Jeg álít, að þessi langa seta sje svo þreytandi, að nemendur njóti tilsagnarinnar ver á þennan hátt en þótt færri stundum væri varið til kenslunnar. Og jeg hygg, að tillit verði tekið til þess í skólamálum framtíðarinnar, hve óholl þessi þreyta er nemendum — og kennurum engu síður. Að vísu skal jeg játa, að þetta kemur síður til greina í sveitum en kaupstöðum.

Jeg skal ekki lengja umr., en vil geta þess, að jeg lít svo á, að þetta mál, sem hjer liggur fyrir, nái til landsins í heild, en ekki til Reykjavíkur einnar. Og jeg verð að segja það, að jeg öfunda blátt áfram hæstv. stjórn af að leiða svo gott mál til lykta.