29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

1. mál, fjárlög 1929

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer þykir gott að fá tækifæri til að svara hv. 2. þm. G.-K. (ÓTh) strax. Hv. þm. sagði, að jeg bæri ábyrgð á því, að Jónas Jónsson ætti sæti í stjórninni sem dómsmálaráðherra. Já, jeg tek glaður á mig ábyrgð á því, og jeg get sagt það, að það gekk mjög erfiðlega að fá hann til þess að taka sæti í stjórninni. En jeg sótti það fast og setti það meira að segja sem skilyrði fyrir því, að jeg tæki að mjer stjórnarmyndun, að hann tæki þar sæti. Jeg taldi hann svo mikilhæfan mann, að ráðuneytinu væri happ í að mega njóta dugnaðar hans og hæfileika. Að vísu má segja, að ekki sje langt um liðið, en jeg hefi heldur ekki iðrast eftir það. Ber því þessa ábyrgð með ánægju.

Þegar hæstv. dómsmrh. er borinn saman við fyrirrennara hans í þeirri stöðu, þá sjest það greinilega, að hann hefir þennan stutta tíma starfað meira og komið fram fleiri umbótum en allir fyrirrennarar hans hafa gert.

Það er mjög einkennilegt fyrir mig, sem ekki hefi fyr átt að verja stjórn á eldhúsdegi — og jeg hygg að það hafi ekki komið fyrir neinn ráðherra áður —, að jeg verð að þakka andstæðingunum ummæli þeirra. Fyrst var það hv. 1. þm. Skagf. (MG) með ummælin og líkinguna um hinn djúpvitra guð, þá hv. 1. þm. Rang. (EJ), með traustsyfirlýsingunni til starfsbróður míns (MK), og nú loks hv. 2. þm. G.-K. ( ÓTh ) , sem jeg verð að þakka ummæli um mig, sem vottaði mjer í ræðu sinni traustsyfirlýsingu og fylgi. Að vísu fylgdu því nokkrar brýningar, en hið gamla er ávalt í gildi, að sá, sem er elskaður, hann er agaður. Þegar litið er til fortíðar gömlu stjórnarinnar í gengismálinu, þá sjest, að hv. þm. hefir með þessari brýningu lýst vantrausti sínu á henni, en fylgi við mig. Jeg tek því ekki illa upp, þótt hv. þm. brýni mig nokkuð um að halda fast við mína stefnu í því máli. Að vísu stendur þessi hv. þm. ekki vel að vígi með slíka brýningu, því á fjórða ár hefir hann ekki gert annað í þessu máli en að leka niður og beygja sig undir vilja fyrv. stjórnar. Hingað til hefir hann aðeins í þessu máli þorað að sýna vilja sinn í pukri og komist það lengst að þora að greiða verðfestingarfrv. atkv. til 3. umr., en gugnaði þá. Nú fyrst þorir hann að koma skýrt og ákveðið fram í gengismálinu. Get jeg fagnað þeim sinnaskiftum og að hann vill nú styðja mig til heppilegrar úrlausnar á því máli.

Hv. þm. sagði, að jeg hefði talið gengismálið mikilvægast allra mála. Það er rjett. Og jeg tel það enn vera það fyrir atvinnuvegina. En hitt er ekki neitt aðalatriði, hvort myntlagabreytingin kemur í dag eða á morgun. Aðalatriðið er að tryggja atvinnuvegina fyrir nýjum gengissveiflum, og til þess situr þessi stjórn. Hv. þm. segist hafa búist við því, að mesti gengismaðurinn hefði verið látinn taka sæti í stjórninni. En jeg get sagt honum það, að færasti maðurinn á því sviði, hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), var settur formaður gengisnefndarinnar. Hefir hann lagt á sig mjög mikla vinnu um að leggja fast „plan“ fyrir því, hvernig ráða skuli gengismálinu til lykta. Jeg get mint hv. 2. þm. G.-K. á það, að þegar á fyrsta fundi gengisnefndarinnar eftir stjórnarskiftin kom glögglega í ljós hin breytta aðstaða, sem gengisnefndinni var veitt til að tryggja atvinnuvegina. Þetta kom líka glögglega fram á hv. 2. þm. G.-K., því að nú var ljett af honum því fargi, sem fyrv. forsrh. (JÞ) hafði lagt á hann í þessu máli og hann hafði nærri kiknað undir. Hv. þm. hafði því góða aðstöðu til að sjá þær gleðilegu breytingar, sem urðu á starfi gengisnefndarinnar.

Hv. þm. heimtar, að jeg setji tryggingu fyrir framgangi þessa máls. Hvaða tryggingu heimtaði þessi hv. þm., þegar hann lagði sig hríðskjálfandi undir svipu Jón Þorlákssonar í gengismálinu? En jeg get sagt hv. þm., að stjórnin vill gjarnan leggja sitt „mandat“ að veði fyrir því, að þessu máli verði komið í höfn. Við höfumst því ólíkt að. Hv. þm. (ÓTh) mátti, meðan fyrv. stjórn sat að völdum, lifa í sífeldri áhyggju um atvinnuveg sinn. En nú má hann vera alveg rólegur. Þetta er svo stór aðstöðumunur, að hann má sannarlega vera glaður.

Þá vjek þessi hv. þm. máli sínu að h/f Titan og sjerleyfi því, er stjórnin hefir heimild til að veita því. Það var nú ekki um að villast, á hvern veg hann vildi brýna mig í því máli, því hann sagði, að enn væri þó sá „töggur“ í mjer, að jeg ætlaði að neita því um sjerleyfið. En að jeg vildi ekki svara þessu nú, væri af hræðslu við flokksmenn mína. En jeg mundi neita um það eftir nokkrar vikur. En þetta eru mótsetningar hjá hv. þm., því það væri sannarlega skammgóður vermir að kaupa sjer þannig frið í nokkrar vikur og heldur ólíklegt, að jeg fjelli fyrir þeirri freistingu.

Hið eina miður góðgjarna, sem kom fram í ræðu hv. þm., var það, að hann óskaði þess, að mig dreymdi illa. Hv. þm. hefði þó átt að unna mjer góðra drauma, þegar jeg geri honum svo mikið til þægðar á móti. En jeg vil óska þess, að hann sofi vel og dreymi vel. Hv. þm. veitir ekki af því, eftir alt svefnleysið og svipuhöggin frá fyrverandi forsrh. (JÞ) í gengismálinu.