14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg hefi ástæðu til þess að þakka háttv. meiri og minni hl. fyrir góðar undirtektir við þetta mál og vildi um leið nota tækifærið til þess að fara um það nokkrum orðum, þótt þess kunni að vísu ekki að vera þörf nú.

Út af brtt. hv. 2. þm. N.-M. um að minka fjárframlag ríkissjóðs til þessa fyrirtækis skal jeg að vísu játa, að frá almennu sjónarmiði sjeð mun það álitið, að Reykjavík beri að annast framkvæmd þessa máls að meira leyti en gert er ráð fyrir í frv. En það hafa sagt mjer fróðir menn, að dragast mundi talsvert um framkvæmdir þess, ef ríkið kipti nú að sjer hendinni og framlaginu væri breytt. Í öðru lagi lít jeg þannig á, að enda þótt Reykjavík eyði nokkru af tekjum landssjóðs, sje það tiltölulega lítið, sem landið gerir fyrir Reykjavík, í samanburði við það fje, sem lagt er til vega og hafnarbóta úti um land. Held jeg, að þessi fjáreyðsla sje því rjettlætanlegri, sem tiltölulega mjög fá mál hafa verið borin fram á þessu þingi fyrir Reykjavík.

Síðan frv. þetta var samið, hefir húsameistari ríkisins verið á ferð um Skandinaviu til þess að kynna sjer ýmislegt viðvíkjandi 4–5 málum, og eitt af þeim málum var þetta. Við nánari samanburð á líkum fyrirtækjum í Noregi og Svíþjóð hefir hann komist að þeirri niðurstöðu, að þetta fyrirtæki muni öllu dýrara, er til framkvæmdanna kemur, en hann bjóst við, þegar hann gerði hina fyrstu teikningu. Vegna nauðsynlegs hreinlætis þarf baðtæki handa fjölda manna, sem baða sig áður en þeim er hleypt í laugina, og er því hugsanlegt, að fyrirtækið yrði dýrara en gert var ráð fyrir upphaflega. En jeg hefi hinar bestu vonir um, að Reykjavík líti svo á, að þetta fjárframlag frá landsins hálfu sje mikil hvatning og verði ráðist til framkvæmda í þessu efni á næstu tveimur árum. Líta margir svo á, sem þetta fyrirtæki, ef komið er til framkvæmda fyrir 1930, muni helst verða til þess að mæla með okkur sem menningarþjóð við hina erlendu gesti.

Út af brtt. hv. 2. þm. N.-M. get jeg bætt því við, að hlutföllin um framlag til sundlauga úti um land hafa nú verið hækkuð úr 1/5 í ½. Ennfremur má geta þess, að við byggingafræðing landsins, Jóhann Kristjánsson, hefir verið samið um að ferðast um í Snæfellsnessýslu, Dalasýslu, Barðastrandarsýslu og Húnavatnssýslu til þess að mæla fyrir nýjum sundlaugum á heitum stöðum þar, svo og víðar á landinu. Sýnir þetta meðal annars, að þetta er stórmál, sem hefir mikla þýðingu fyrir alt landið.