14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1743 í B-deild Alþingistíðinda. (788)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Halldór Steinsson:

Jeg get ekki verið hæstv. dómsmrh. svo sjerlega þakklátur fyrir þetta frv., þótt jeg hinsvegar viðurkenni að sjálfsögðu, að sund er holl og góð íþrótt og mjög nauðsynleg, þar sem meira en helmingur landsmanna stundar sjóvinnu. En jafnframt því, að jeg viðurkenni það sem skyldu þings og stjórnar að örva menn til þess að nema þessa íþrótt, verð jeg að geta þess, að jeg er ekki ánægður með það frv., er hjer liggur fyrir.

Þegar litið er á aðstöðu Reykjavíkur til sundnáms, þá hefir hún betri aðstöðu en flestir staðir á landinu. Hjer er góð sundlaug skamt frá bænum, sem allir bæjarmenn eiga gott með að nota, enda hafa ekki komið kvartanir frá þeim um, að þeir gætu ekki lært sund. Þegar sundnámi er lokið, tekur sjórinn við, og reistur hefir verið góður sundskáli við sjóinn. Aðstaðan hjer er því miklu betri en annarsstaðar á landinu, og að því er snertir nemendur skólanna, þá er þeim gert það að skyldu í flestum þeirra að læra sund, enda hygg jeg þá hafa gert það á síðustu árum.

Jeg hygg, að örva megi sundnám á ódýrari hátt en hjer er gert ráð fyrir. Og þegar verið er að kvarta um fjeleysi og demba inn í þingið frv., sem gefa miljónir í tekjuauka, virðist sem ekki ætti að bera fram útgjaldafrv. til annars en þess, sem bráðnauðsynlegt er, en svo er ekki um þetta. Jeg lít svo á, að sundhöll sje meira til þæginda en til þess að auka sundþekkingu og til að gera Reykvíkingum hægra fyrir að læra sund og iðka. En þegar bráðnauðsynleg fyrirtæki, eins og t. d. landsspítalinn, sem búið er að klifa á ár eftir ár, hafa lítinn byr, finst mjer ekki rjett að ýta undir slík mál sem þessi og láta sitja fyrir öðrum þjóðþrifamálum.