14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1745 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

10. mál, sundhöll í Reykjavík

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Jeg held, að hv. þm. Snæf. sje um of bölsýnn. En jeg get glatt hann með því, að þetta frv. kemur óbeint til að hafa góð áhrif í hans kjördæmi, ekki aðeins vegna þeirra manna, sem koma til Reykjavíkur og læra sund þar, heldur einnig í sambandi við sundlaug, sem nú er verið að undirbúa í Staðarsveit á Snæfellsnesi. Hún kemur nú til með að njóta aukins styrks vegna þeirrar breytingar, sem hjer verður gerð. Hlutfallsbreytingin er mikil og á að ná til alls landsins. Hv. þm. álítur sundkenslu hjer í góðu lagi. Það er satt að vísu, að laugarnar gera mikið gagn. Og það er auðsjeð á lýsingunum frá hinu sorglega strandi, sem átti sjer stað fyrir skömmu, að sumir mennirnir voru aðdáanlega vel syndir og björguðust vegna sundfimi sinnar, og svo hefir oft verið áður í alvarlegum slysatilfellum, að laugarnar hjer hafa bjargað. En það eru margir Reykvíkingar, sem ekki hafa lært sund, og ekki nema nokkrir íþróttamenn, sem stunda sund fram á miðjan aldur, og sjósund einungis þeir hraustustu. Og því veit jeg, að það verður um „renaissance“-sundhöll að ræða í þessu efni, ef sjór verður notaður í sambandi við sundhöllina og menn læra að nota hann.

Jeg þykist vita, að hv. þm. hafi lagst á móti þessu frv. af sparnaðarástæðum, en jeg vona, að læknavísindin verði svo þungt lóð í hinni vogarskálinni, að hann verði með frv. Þó að það sje hlutverk læknanna að draga menn upp úr pyttinum, er hitt ekki minna um vert, að byrgja pyttinn og búa svo um, að ekki þurfi að sækja lækna.