19.01.1928
Sameinað þing: 1. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. meiri hl. 2. kjördeildar (Magnús Torfason):

2. kjördeild hefir athugað kjörbrjef þau, er henni voru fengin til meðferðar, og leggur til, að athugasemdalaust verði teknar gildar kosningar þessara hv. þm.:

Haralds Guðmundssonar, þm. Ísaf.,

Hannesar Jónssonar, þm. V.-Húnv.,

Jörundar Brynjólfssonar, 1. þm. Árn.,

Jóhannesar Jóhannessonar, þm. Seyðf.,

Erlings Friðjónssonar, þm. Ak.,

Sigurjóns Á. Ólafssonar, 4. þm. Reykv.,

Magnúsar Guðmundssonar, 1. þm. Skagf., og Jóhanns Jósefssonar, þm. Vestm.

Um kosningu Páls Hermannssonar, 2. þm. N.-M., er þess að geta, að kjörbrjef hans lá ekki fyrir kjördeildinni, en afrit af því í símskeyti, staðfest af stöðvarstjóra. Voru allir á eitt sáttir um að taka það gilt.

Þá er aðeins eftir kjörbrjef Jóns Auðuns Jónssonar, sem fengið hefir yfirgnæfandi atkvæðafjölda í NorðurÍsafjarðarsýslu. Eins og öllum er kunnugt, hafa staðið yfir miklar rannsóknir út af þeirri kosningu. Verður því ekki neitað, að í rannsókninni hefir orðið vart við margar og miklar misfellur á kosningunni, svo miklar, að slíks munu engin dæmi áður á landi hjer. Hjer er um mikið alvörumál að ræða, og því þótti meiri hluta 2. kjördeildar rjett, að Alþingi tæki sjer frest til að athuga þessa kosningu nánar og komast að niðurstöðu um, hvað gera skuli, er svo óvenjulega stendur á, sem jeg hefi nú frá skýrt.

Það er því tillaga meiri hl. kjördeildarinnar, að frestað sje fyrst um sinn samþykt á kosningu Jóns Auðuns Jónssonar.