28.01.1928
Efri deild: 8. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1749 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Mjer er að því mikil ánægja að bera fram frv. þetta, því að það er um eitt allra merkasta mál, sem nú er uppi með þjóðinni. Ræktun lands og bygging nýrra býla og endurreisn hinna gömlu býla eru nú taldar með merkustu framkvæmdum nágrannaþjóðanna. Hafa þær þar þegar haft mikið gott í för með sjer, og er sú von manna, að þær muni bera glæsilegan árangur í framtíðinni. Er nú mál til þess komið, að vjer Íslendingar förum að dæmi nágranna vorra um aðstoð af hálfu hins opinbera í þessu efni.

Um þetta frv. mætti margt tala. Mun jeg þó ekki gera svo í þetta sinn. Liðið er á fundartímann og áríðandi, að frv. komist sem fyrst til nefndar. Hefir og þetta mál oft verið rætt hjer í hv. Ed., og auk þess í fyrra í hv. Nd. Milliþinganefndin í landbúnaðarmálum hefir haft það til meðferðar. Síðan hefir stjórnin látið athuga frv., bæði af búfróðum manni og lögfræðingi. Vona jeg því, að það sje sæmilega undirbúið.

Jeg mun ekki gefa tilefni til deilu um þetta frv. Það er einlæg ósk mín að fá nú á þinginu enda bundinn á þetta merkilega mál, til þess að þessi starfsemi geti byrjað. Þykist jeg og sjá merki til samkomulags í þeim skilningi, sem hv. þáv. 3. þm. Reykv. sýndi á málinu í fyrra. Vona jeg því, að nú takist um það samvinna allra hv. þm., öldum og óbornum til gæfu.

Að endingu leyfi jeg mjer að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.