22.02.1928
Efri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1756 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Þorláksson:

Þetta frv. hefir nú tekið allmiklum stakkaskiftum frá því að samnefnt frv. kom hjer fyrst fram í deildinni eins og hv. frsm. benti rjettilega á. Og jeg verð jafnframt að telja, að breytingarnar sjeu til mikilla bóta; sjerstaklega tel jeg það þó mikilsvert atriði, að numin hafa verið á burt úr frv. öll þau ákvæði, sem í frumsmíðinni voru og leiddu til breytinga á skattalöggjöfinni. Enda lít jeg svo á, að það sje heppilegra fyrir alla, að skattalöggjöfin sje sjálfstæð og út af fyrir sig, en ekki blandað inn í önnur lög um óskyld efni.

Að vísu mætti ef til vill deila um fjárhagsatriði frv. að því leyti, er þau viðkoma ríkissjóði. Það er sem sje stungið upp á í frv. 250 þús. kr. útgjaldaauka fyrir ríkissjóð á ári, sem hv. landbn. leggur til, að færist niður í 200 þús. kr. Þetta er að vísu talsvert mikið fje fyrir ríkissjóð að gjalda á næstu árum, en jeg verð þó að segja það, að sumt, sem brotið hefir verið upp á á þessu þingi til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð, virðist mjer miður þarft en það, sem hjer er farið fram á.

Það, sem eftir er þá í frv. af höfuðgöllum þeim, sem einkendu hina upphaflegu frumsmíð þess, eru ákvæðin í 9. gr., en þau eru líka þess eðlis, að jeg fæ ekki sjeð, á hvern hátt þau geti í framtíðinni samræmst þeim góða tilgangi, sem frv. er ætlað að vinna, sem sje þeim, að hlynna að landbúnaðinum fyrst og fremst með ódýrum lánveitingum bæði til húsabygginga í sveitum og til aukinnar ræktunar, þegar fram í sækir. Mjer sýnist ekki betur en að sá stuðningur, sem með frv. er veittur byggingar- og ræktunarstarfsemi sveitanna, sje tekinn að miklu leyti aftur með ákvæðunum í 9. gr. Með þeim er lagt til að leggja þær kvaðir á eignir lántakenda, sem ekki hvíla á neinum öðrum eignum í landinu og eru þess eðlis, að jarðirnar verða þeim bændum minna virði en öðrum eru samskonar eignir, og það vegna þess eins, að þeir hafa orðið að leita á náðir þessa sjóðs um lántökur sínar, eða svona kemur mjer það fyrir sjónir, en vildi þó gjarnan taka skýringum, ef hægt er að bera þær fram.

Kvöðin, sem felst í 9. gr., er sú, að aldrei má selja eign, sem fengið hefir lán úr sjóðnum, hærra verði en síðasta fasteignamat sýnir, en þetta virðist mjer ganga beinlínis í berhögg við þá viðleitni þingsins síðustu ár, að auka arðsvon jarðanna og verðmæti með bættum samgöngum, símum, vegum og aukinni ræktun á ýmsan hátt.

Nú skulum við gera ráð fyrir, að þessi starfsemi hins opinbera beri tilætlaðan árangur, að eignin hækki í verði vegna arðsvonarinnar, sem fylgir t. d. bættum samgöngum, en af því að eigandinn hefir fengið lán úr þessum ákveðna sjóði til þess að endurbæta eignina, er hann skyldugur til að selja hana ekki dýrara verði en þeirri hækkun nemur, er kemur fram við fasteignamat. Nú er það alment álitið, að fasteignamatið sje svo lágt, að það nemi sjaldnast 2/3 af því verði, sem eignirnar eru seldar manna í millum, enda kunnugt um, að víða er það jafnvel ennþá lægra. Ef því heldur áfram, að svo varlega verði farið í fasteignamatið, sem á vissan hátt er eðlilegt, þar sem hjer er aðallega um skattmat að ræða, þá er alt útlit á því, að eigendur þessara jarða verði ver settir en nágrannar þeirra, sem komist hafa hjá því að þiggja fje að láni úr þessum sjóði.

Þess vegna er mjer það með öllu óskiljanlegt, hvers vegna verið er að leggja þessar kvaðir á menn um leið og þeim er rjett höndin og hjálpað til að auka arðsvon jarðanna.

Þá er það síðara atriði þessara ákvæða í 9. gr. frv., að eignina má aldrei leigja hærra verði en nemur 4% landverðs, miðað við síðasta fasteignamat, að viðbættum 2% af verði húsanna.

Við skulum nú gera ráð fyrir, að lánið nemi 3/5 af verði hússins og að hann fái húsið metið eins og það kostar. Fái hann það, þá má hann taka í leigu 2 kr. af hverjum 100 kr. húsverðsins, en verður sjálfur að greiða í vexti til sjóðsins 3 kr. af hverjum 100 kr., og sjá allir, hve hagkvæmur verslunarjöfnuður það er. Þar að auki tapar hann alveg vöxtum af sínu eigin framlagi til bygginganna, eða af 2/5 húsaverðsins.

Þá er annað, og það er það, að ef byggingin á að verða til og í nothæfu ástandi eftir 42 ár frá því að hún var gerð, þá er komin svo mikil fyrning á hana, að viðhaldið eitt hefir kostað eigandann ekki minna fje en húsið kostaði í fyrstu. Þetta er líka kvöð, og eins og jeg hefi áður bent á, sje jeg ekki betur en að það hljóti að leiða af sjer óhjákvæmilegt tap fyrir eiganda, ef hann einhverra hluta vegna neyðist til þess að leigja jörðina. Og jeg sje bara enga ástæðu til að vera að gera sjálfseignarbændum landsins þessar búsifjar, jafnhliða og verið er að rjetta þeim höndina til þess að ljetta undir með þeim að byggja jarðir sínar og rækta.

Þetta læt jeg mjer nægja í bili, en vildi gjarnan fá skýringar á þessum ákvæðum 9. gr., sem jeg hefi nú gert að umtalsefni.