22.02.1928
Efri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Frsm. (Einar Árnason):

Hv. 3 landsk. talaði um 9. gr. og kvað þar vera á ferðinni nýmæli, sem spilla mundi þeim árangri, sem frv. er ætlað að hafa. Aðalatriðið í ræðu hans var það, að kvaðir þær, sem 9. gr. legði á jarðirnar, hefðu þá afleiðingu, að þær yrðu minna virði en ella. — Að mínu áliti er þetta bæði rjett og ekki rjett. Það fer alveg eftir því, til hvers menn álíta, að verðmæti jarðanna eigi að vera. Hv. þm. hefir rjett fyrir sjer, ef litið er á þær sem verslunarvöru. En sjeu þær skoðaðar sem framleiðslutæki til þess að framleiða búfjenað og matjurtir, þá hefir hann á röngu að standa. Það þarf ekki að vera lakara að búa á þeirri jörðinni, sem talin er minna virði. Kýrnar mjólka eins vel og fjeð er eins vænt, þó að kvöð sje á grasinu, sem það bítur. Um þetta getur okkur því ekki komið saman. Dæmi undanfarinna ára sanna mitt mál, þegar litið er til þeirra bænda, sem tekið hafa lán til þess að byggja jarðir sínar. Nú eru þessar jarðir orðnar geysidýrar margar hverjar, af því að byggingarnar hafa kostað of mikið. Þrátt fyrir það er litlu eða engu betra að búa á þeim, og nú er ekki hægt að selja þær nógu dýrt. Að öllu þessu athuguðu held jeg, að rjett sje stefnt með ákvæðum 9. greinar.

Þá talaði hv. þm. um eftirgjaldið, að ekki mundi sanngjarnt að ákveða það 4% og 2%. Jeg skal ekki að svo stöddu deila um þetta. Jeg vil koma þessu svo fyrir, að það sje hvorki of lágt nje of hátt, miðað við þann bagga, sem jarðeigandinn hefir á sig lagt. Má vel vera, að útreikningur hv. þm. hafi við eitthvað að styðjast. Sem landbúnaðarnefndarmaður mun jeg fús til að athuga tillögur hans og þau rök, sem að þeim kunna að liggja.

Hefi jeg svo í rauninni ekki meira að segja. En jeg vildi aðeins skýra frá því, hvernig jeg og meðnefndarmenn mínir lítum á það atriði, sem hv. 3. landsk. gerði sjerstaklega að umtalsefni.