22.02.1928
Efri deild: 29. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Þorláksson:

Jeg fer ekki fram á það hið hæstv. forseta, að hann leyfi mjer að svara þessu síðasttalda, sem hæstv. ráðherra lenti út í í flóði mælsku sinnar. En jeg vil gera aths. út af því, að hann fór óviðeigandi orð um um stjórn Reykjavíkur og málefna bæjarins á síðustu 20 árum. Orðbragð það, sem hann fann sjer sæmandi að nota í þessu sambandi, er á venjulegu máli kallað skammir. Jeg vil aðeins benda hv. þm. á það, að á þessum árum hefir stjórnendum bæjarins tekist að gera hann svo úr garði, að í honum hefir skapast slíkt aðdráttarafl, að til vandræða horfir að sumra áliti. Jeg veit nú ekki, hvort þetta ber vitni um sjerleg mistök í stjórn bæjarfjelagsins. Og ef hæstv. dómsmrh. tækist að gera einhvern annan stað á landinu, sem honum er hjartfólgnari, svo úr garði, að aðdráttarafl hans yrði svona mikið, þá efast jeg um, að hann þættist verðskulda skammir fyrir ljelega stjórn.

Þá eru aðeins örfá orð til að lýsa afstöðu 9. gr. til eignarrjettarins. — Hæstv. dómsmrh. skildi það rjett, að ef lagðar eru 200 þús. kr. á ári úr ríkissjóði til þessara lána, þá heldur það verðmæti áfram að vera til, og í samræmi við það benti hv. frsm. (EÁ) á, að engin lagaákvæði geta rýrt raunverulegt verðmæti jarðanna, sem fjeð hefir farið í. Í frv. er svo frá þessu gengið, að af þessu aukna verðmæti á jarðeigandi að eiga nokkuð, en hitt á enginn að eiga. Þetta sýnir, að þótt greinin sje samin í anda jafnaðarmanna, hefir verið rjálað við henni á þann hátt, að engum jafnaðarmanni er trúandi til að vera svo klaufskur. — Jafnaðarmenn hefðu haft einurð á að segja, að ríkið ætti að eiga það af verðmætinu, sem tekið er með lögunum frá eigendunum. En þessi hluti jarðeignanna getur ekki verið eigandalaus til lengdar og lendir í höndum spákaupmannanna, og svo verður skollaleikurinn ekki stöðvaður fyr en eigendur jarðanna eru orðnir svo sterkur flokkur í þjóðfjelaginu, að þeir geti náð verðmætinu til sín, þ. e. a. s., ef jafnaðarmenn hafa ekki áður náð því í ríkisins hendur með valdboði.