27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1783 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. 2. þm. Skagf. saknaði þess, að jeg hefði ekki gert sjerstaka grein fyrir máli þessu um leið og það var lagt fyrir þessa hv. deild. Jeg hjelt nú, satt að segja, að honum og öðrum hv. þdm. hefði verið kunnugt um gang málsins yfirleitt, að milliþinganefndin í landbúnaðarmálum hafði það til meðferðar og varð sammála um það. Milliþinganefndin skoðar þó þau frv., sem hjer liggja fyrir, hvorki þetta frv. nje breytinguna á jarðræktarlögunum, sem endanlega löggjöf um þessi efni, en álítur hinsvegar, að við eigum að fara á stað með þetta. Og það situr nú á rökstólum nefnd, sem mun taka nýbýlamálið alveg sjerstaklega til athugunar. Ástæðan til þess er meðal annars sú, að ríkið verður að reyna að fá arð af því landi, sem það á, og því mikla fje, sem það hefir lagt fram til ræktunar í þeim hjeruðum, sem um er að ræða. Út frá þessu öllu hjelt jeg, að hv. þdm. væri svo kunnugt um þetta mál, að jeg sá ekki ástæðu til að skýra það sjerstaklega. — Á næsta þingi vona jeg, að hv. þm. (JS) fái tækifæri til að sýna með atkvæði sínu hug sinn til stórfeldra umbótatill. í þessu efni, en hann má ekki krefjast þess af stj., eftir þá fáu mánuði, sem hún hefir setið við völd, að hún hafi öll sín mál tilbúin á þessu þingi.