29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (82)

1. mál, fjárlög 1929

Ingólfur Bjarnarson:

Það er varla fært, að jeg fari að tefja fyrir í eldhúsinu, svo erfiðlega sem verkin ganga þar nú. En jeg tel mjer skylt að leiðrjetta ranga sögusögn, sem fram kom hjá. hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) um kosninguna í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann sagði, að formaður einnar undirkjörstjórnar í sýslunni hefði komið á kjörfund með 3 kjörseðla í vasanum, og þegar hann átti að gera grein fyrir þessu, hefði hann sagt, að „karlarnir vildu hafa það svona“, eða eitthvað á þessa leið sagðist hv. þm. N.-Ísf. frá.

Mjer datt í hug, þegar hv. þm. var að skýra frá þessu, að ef allar frásagnir hans um kosninguna í Norður-Ísafjarðarsýslu færu álíka nálægt sannleikanum og essi saga, þá væri hann þegar orðinn óþarflega orðmargur hjer í deildinni. En hann talaði mjög hátíðlega um þá kosningu og virtist telja alt, sem þar fór fram, harla gott, þó að hann e. t. v. hafi viljað undanskilja það athæfi, „sem sannaðist um að væri glæpsamlegt“.

En jeg verð að gefa þá yfirlýsingu, að saga sú, sem hann sagði úr Suður-Þingeyjarsýslu, er algerlega röng. Til þess að sýna, hve vendilega sannir atburðir hafa umhverfst í meðferð hv. þm. eða sögumanna hans, skal jeg skýra frá því tilefni, sem jeg ætla, að muni liggja til grundvallar fyrir söguburði hans.

Við kosningu á einum kjörstaðnum í Suður-Þingeyjarsýslu mættu nokkrir kjósendur frá bæ einum, sem sýktur var af skarlatssótt. Nú var verið að reyna að verja sveitina fyrir veikinni, en menn óttuðust, að þessir kjósendur gætu orðið valdir að sýkingu, ef þeir kæmu inn í kjörherbergið. Þá tók kjörstjórnin það ráð að leyfa heim að kjósa annarsstaðar. Formaður kjörstjórnarinnar, valinkunnur sæmdarmaður, sem engum mun koma til hugar að væna um sviksemi, var valinn til þess að færa þessum kjósendum kjörseðlana fram í bæjardyr, taka við þeim aftur samanbrotnum, eftir að kjósendurnir hefðu útfylt þá, og láta þá í atkvæðakassann, auðvitað í votta viðurvist.

Það er alveg rjett, að þetta er ekki í samræmi við gildandi lög, og því óheimil aðferð, jafnvel þó að það væri gert til þess að forðast sýkingarhættu. En nokkuð stingur þessi meðferð kjörstjórnar í stúf við frásögn hv. þm. N.-Ísf. Það var ennfremur einkennilegt við nefnda kosningameðferð, að umboðsmaður íhaldsframbjóðandans á umræddum kjörfundi hafði ekkert við þetta að athuga. En svo kærði hann þetta löngu seinna. Og þegar yfirkjörstjórn tók ekki kæru hans til greina, kærði hann til stjórnarráðsins og vildi láta ógilda alla kosninguna í sýslunni fyrir þessar sakir. Og jeg veit ekki betur en að þessi mæti maður gerði sjer ferð hingað til Reykjavíkur til þess að fylgja fram þessu máli, þó að uppskeran yrði lítil af þeirri fyrirhöfn.

Nú hafa háttv. þdm. fengið að heyra sannleikann um þær misfellur, sem áttu sjer stað við þessa kosningu í Suður-Þingeyjarsýslu. Veit jeg, að þeir muni sjá, að hjer er aðeins um óverulega formgalla að ræða og alt annað en hv. þm. N.-Ísf. vildi vera láta.