27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Sigurðsson:

Hæstv. atvmrh. tók það fram, að hjer væri ekki um endanlega lausn á þessu máli að ræða, og mjer skildist jafnvel, að nokkur dráttur gæti orðið á henni. (Forsrh. TrÞ: Hún kemur á næsta þingi). Jeg sje þá ekki ástæðu til þess, ef bráðlega á að snúa sjer að nýbýlamálinu, að vera að káka við það nú og flækja því inn í annað stórmál rjett til bráðabirgða. Hvað hitt snertir, sem hæstv. ráðh. talaði um, að gerðar myndu ráðstafanir til að hagnýta land, sem ríkissjóður væri búinn að leggja fje í, þá býst jeg við, að það sje staðbundið við Skeiðin og Flóann, en komi ekki okkur hinum að notum.

Það, sem fyrir mjer vakir og jeg legg langmesta áherslu á, er ekki það, sem í venjulegu máli er kallað nýbýlamál, heldur hefi jeg miklu meiri trú á því að styðja efnilega bændasyni, svo að þeir geti búið á sínum jarðarhluta, en þurfi ekki að hrekjast í burtu, vegna þess að börnin eru fleiri en eitt. Það er farsælasta leiðin til þess að koma upp velmegandi bændastjett, en ekki hitt, ef menn ættu að reisa bú á alveg óræktuðu landi, því að það mundi verða til þess einungis að skapa hinn mesta fjölda kotbænda.

Hæstv. atvmrh. þótti jeg krefjast fullmikils af stj., að hún hafi öll mál sín tilbúin. Því fer mjög fjarri, að jeg krefjist slíks, en með því að mál þetta er ekkert nýmæli hjer á þingi og hæstv. atvmrh. hefir lagt töluvert til þess máls í blaði sínu, þá bjóst jeg við, að hann, að minsta kosti með aðstoð milliþinganefndar, hefði getað skapað sjer sjálfstæða skoðun í málinu, svo hann væri fær um að koma fram með rökstuddar og ákveðnar tillögur, sem menn gætu hallast að.

Vegna þess, að um þetta mál hafa farið fram allítarlegar umr., kannast jeg ekki við að hafa verið of kröfuharður í garð hæstv. atvmrh., þótt jeg æskti að heyra hans eigið álit.