27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Halldór Stefánsson:

Mjer skildist á hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Eyf., að þeir líti svo á, að till. frv. sjeu aðeins til bráðabirgða. En jeg vil leyfa mjer að benda á, að einmitt þessi skifti, að nýbýlin hafa verið sett aftur fyrir endurbyggingu og viðhald bæja, virðist mjer höfuðástæðan til þess, ef svo er. Með þessu virðist mjer málið vera gert umfangsmeira og flóknara en þurfti að vera.

Eins og jeg hefi áður sagt, þá þætti mjer heppilegra að leysa þessi verkefni í sundur og leita sjerstakra úrræða um endurbyggingu bæja í landinu, en um það er of umfangsmikið að tala nú.

Hv. 2. þm. Eyf. áleit, að hömlur þær til að ráðstafa eignunum, sem fylgja lánveitingunni, mundu draga nægilega úr umsóknum til sjóðsins. Það virðist mjer hæpið að ætla, því að kjör sjóðsins eru að öðru leyti miklum mun aðgengilegri en nokkur önnur kjör, sem fáanleg eru, og því óttast jeg, að lítið verði eftir til nýbýlanna.

Hv. 2. þm. Rang, vildi halda því fram, að ekki þýddi að hugsa til nýbýlabygginga nema þar, sem markaðs- og samgönguskilyrði væru mjög góð. Virtist hann álíta, að því aðeins mundi koma til framkvæmda austanfjalls, t. d. í Flóanum, að jafnframt væru bættar samgöngurnar. En jeg vil benda hv. þm. á, að alstaðar þar, sem annars borgar sig að reka búskap á landinu, þar eru markaðsskilyrði svo góð sem nægir, en það er í öllum sveitum landsins. Og ef menn austanfjalls þykjast. ekki geta notað sjer þetta vegna samgöngu- og markaðsleysis, munu ýmsir aðrir þiggja það á meðan.

Jeg greip fram í fyrir hv. 1. þm. Rang., að hjer væri um annað mál að ræða en það, sem hann vísaði til í sinni ræðu. Það mál var aðeins fyrir í Ed., en þetta mál, sem hjer um ræðir, hefir aðeins verið til umr. í Nd.