27.02.1928
Neðri deild: 33. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (830)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Hákon Kristófersson:

Jeg tel umr. þýðingarlitlar um málið á þessu stigi þess. Hv. þm. V.-Húnv. ljet svo um mælt, að hann teldi frv. þetta þýðingarmikið spor. Jeg held, að um frv. þetta eins og annað gildi gamli málshátturinn: Varðar mestu, að allra orða undirstaðan sje rjettleg fundin“. Ef frv. á að ganga fram í þeirri mynd, sem það nú liggur fyrir í, má segja, að það taki aftur með annari hendinni það, sem það gefur með hinni. Jeg skal ekki fara út í fjárhagshlið þess að þessu sinni, en jeg get ekki stilt mig um að drepa nokkrum orðum á skilyrði þau í h-lið, sem sett eru fyrir lánum til bygginga, þar sem svo stendur: „að sannað sje með vottorði hreppstjóra, að húsakynni sjeu óhæf til íbúðar vegna hrörnunar, eða með vottorði hjeraðslæknis, að heimilisfólki sje þar búið heilsutjón“. Með öðrum orðum: lán fæst ekki til bygginga, nema íbúðin sje orðin óhæf fyrir menn að vera í, — þá fyrst er um nokkra lánshjálp að ræða. Þetta ákvæði virðist reka sig heldur en ekki á rjettmætar staðhæfingar hv. þm. V.-Húnv. Og fleiri um nauðsyn endurbygginga. Ef hjálpin á ekki að koma, fyr en húsin eru að falli komin, þá kemur hún fullseint að mínum dómi. (JörB: Þetta er orðið svo víðsvegar um land). Eiga þá dugnaðarmennirnir, sem vilja byggja, áður en kofarnir detta ofan yfir höfuðin á þeim, að gjalda framtakssemi sinnar? Jeg vona, að hv. nefnd felli h-liðinn niður.

Það getur vitanlega orkað tvímælis, hvað telja skuli „varanlegt byggingarefni“, en jeg býst við, að þar sje átt við steinsteypu. Jeg skal ekki víkja sjerstaklega að því, er hjer hefir verið sagt, að sveitabæirnir stuðli að útbreiðslu berklaveikinnar, en ekki getur það átt við um alla þá mörgu, sem veikina hafa tekið í kaupstöðum, og það er langt frá því, að það hafi ávalt verið þeir, sem hafst hafa við í kytrum og kjallaraholum.

Jeg vil til bendingar fyrir hv. nefnd spyrja að því, hvort það muni vera heppilegt ákvæði, að landseti skuli hafa girt 10 dagsláttur innan 2 ára frá lánveitingu og fullræktað 10 dagsláttur innan 5 ára. Er hægt að ætlast til þess, að bláfátækur maður skili 10 dagsláttum fullræktuðum eftir 5 ár? — Því að eigi landið að vera fullræktað, verður a. m. k. eitt ár að vera liðið frá síðustu framkvæmd. Það er langt frá því, að jeg sje að leggjast á móti frv., en jeg vil aðeins leggja áherslu á það, að nefndin gangi svo frá því, að það verði ekki aðeins pappírsgagn, og að skilyrði verði ekki sett svo þröng fyrir lánveitingum, að menn verði litlu nær.