16.03.1928
Neðri deild: 49. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (840)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Bernharð Stefánsson:

Það er ekki nema eðlilegt, að 4. gr. frv. verði hjer helst að ágreiningsatriði. Í henni felst sú stefnubreyting, sem orðið hefir á frv. frá því í fyrra, þar sem í henni er skýrt tekið fram, að lán til að endurbyggja íbúðarhús á sveitabýlum skuli ganga fyrir nýbýlabyggingum. Virðist mjer hv. 2. þm. Skagf. helst hafa orð fyrir þeim mönnum, sem óánægðir eru með þessa breytingu. Þessi tvö mál, að endurreisa hús á bygðum býlum og auka bygðina með því að stofna nýbýli, eru hvorttveggja stórræði, sem þjóðin verður að ráðast í fyr eða síðar. Og þessu máli er ekki komið í viðunanlegt horf fyr en tök eru á að hefjast handa á báðum þessum sviðum. En sem stendur er þetta ekki hægt til hlítar, og þess vegna verður annar þátturinn að sitja frekar á hakanum í bráðina. Ástæðan fyrir því, að lán til endurbygginga eru látin sitja fyrir, er sú, að milliþinganefndin í landbúnaðarmálum og landbn. þessarar deildar álíta, að það sje miklu meira aðkallandi en nýbýlamálið.

Jeg ætla ekki að fara að rökstyðja þá skoðun nánar, því að það hafa þeir hv. frsm. og hv. þm. V.-Húnv. gert, en vil aðeins benda hv. 2. þm. Skagf. á það, sem jeg einnig vjek að í fyrri ræðu minni, að af hálfu milliþinganefndarinnar er þetta frv. alls ekki skoðað sem fullnaðarniðurstaða í þessu máli, heldur er frv. skoðað sem bráðabirgðaráðstöfun, þar til hægt verður að koma á fót lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, með meira fjármagni og víðtækara starfssviði en þessi sjóður hefir. Kæmi þá þessi nýja lánsstofnun í stað ræktunarsjóðs og sjóðs þess, er frv. fjallar um, og mætti hugsa sjer, að hún skiftist í 3 deildir, er hver hefði sitt hlutverk: 1. ræktunarlánadeild, 2. byggingarlánadeild og 3. nýbýlalánadeild.

Framtíðin mun sýna, að nýbýlamálinu mun engu síður sint, þótt þetta frv. verði samþ. nú. Sje jeg ekki, að hægt sje að láta það dragast lengur að gera bændum mögulegt að koma sjer upp sæmilegum húsakynnum. Mjer er vel kunnugt um, að margir þeir bændur, er ekki geta unað lengur við húsakynni sín, leggja þá spurningu fyrir sig í fullri alvöru, hvort þeir eigi heldur að ráðast í að byggja hús eða leita til kaupstaðanna. Margir þeir, sem ráðist hafa í að byggja hús og hafa fengið til þess lán úr ræktunarsjóði, stynja undir þeim kostnaði, sem af því leiðir, og eru þó ræktunarsjóðslánin þau hagfeldustu lán, sem hægt er að fá nú. Það mun og mála sannast, að landbúnaðurinn, eins og hann hefir verið rekinn til þessa, þolir ekki slíkan kostnað, víðast hvar. Jeg vildi með þessum orðum hugga hv. 2. þm. Skagf. með því, að jeg tel fullvíst, að máli þessu sje ekki ráðið til lykta með þessu frv. og. hann og aðrir geti bráðlega fengið tækifæri til þess að vinna að nýbýlamálinu.

Ekki getur samþ. 4. gr. staðið því máli í vegi, því nýbýlamálið þarf svo mikinn undirbúning, að þótt frv. hefði verið samþ. eins og það lá fyrir í fyrra, þá hefði ekki verið unt að hefjast handa neitt verulega þegar í stað, enda er margt, sem snertir nýbýlamálið, enn ekki rannsakað að fullu.

Um önnur atriði, sem hv. þm. spurði um, hefir hv. frsm. svarað honum, en það er þó eitt atriði, sem hv. þm. vjek að í síðustu ræðu sinni, sem jeg veit, að muni verða mikið ágreiningsefni í framtíðinni. Hv. þm. ljet í ljós þá skoðun, að þjetta ætti bygðina í betri sveitunum, en, að því er mjer skildist, leggja lakari sveitirnar, eða a. m. k. afdali og útkjálka, í eyði.

Í g.-lið 3. gr. frv. er gert ráð fyrir því að veita ekki lán til endurbygginga nema á þeim býlum, er sje svo vel í sveit komið, að ráðlegt þyki að byggja þar hús. Þetta er kannske nokkuð óákveðið, en það ætti að vera nokkur trygging gegn því, að lán yrðu veitt til heiðarkota, þar sem hætta væri á, að bygð gæti ekki haldist við. En þótt það sje alveg rjett að veita ekki lán til slíkra staða, þá verður samt að fara varlega í því að hlaða undir góðsveitirnar, en láta hinar sitja á hakanum. Þeir, sem hafa trú á því, að landbúnaðurinn eigi eftir að aukast og blómgast, munu líta svo á og hafa þá trú og von, að sá tími komi, að allar sveitir landsins verði byggilegar. Jeg álít því rjettara að reyna að halda í horfinu og hjálpa mönnum í hinum lakari sveitum til að endurreisa hús sín, engu síður en þeim, sem í góðsveitunum búa. Þó tek jeg undan lökustu heiðakot og afdalabýli.