19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1820 í B-deild Alþingistíðinda. (843)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Jón Sigurðsson:

Jeg þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir till. minni á þskj. 519. Jeg vil aðeins fá það skýrt fram, að ákvæði 4. gr. frv. taki einnig til nýbýla, sem eru reist að einhverju leyti á ræktuðu landi, en ekki aðeins til endurbyggingar á niðurníddum býlum. Því hefir verið lýst yfir af einum manni úr milliþinganefndinni í landbúnaðarmálum, að ætlast væri til, að þegar jörð væri skift í fleiri býli, þá kæmi það undir 4. gr., enda væri stuðst við ræktað land að einhverju leyti. En eins og greinin er orðuð nú, þá gæti hún gefið tilefni til misskilnings, þar sem aðeins er talað um að endurreisa hús. Jeg hefi borið tillöguna undir nefndina, en hún sá ekki ástæðu til að taka afstöðu til hennar. Vil jeg því skjóta því undir úrskurð hv. deildar, hvort hún telji ekki rjett, að þetta sje tekið skýrt fram og skýrara heldur en þó það sje gert í framsöguræðu, og þar með tryggja, að eitthvað verði þó reist af nýbýlum fyrir þetta fje. Nefndin hefir þó litið svo á, að þessi skilningur minn væri rjettur og þannig bæri að afgreiða það, svo jeg þarf ekki að fjölyrða um það frekar. Engin ástæða er til að óttast, að þetta geti orðið málinu að falli, þar sem hv. landbn. Ed. er sammála um þetta. Þessi brtt., sem tekur af öll tvímæli, ætti ekki að geta spilt fyrir málinu. Jeg hefi einnig borið þetta undir lögfræðing, sem hefir kynni af þessum málum, og var það álit hans, að frvgr. eins og hún væri nú væri ófullnægjandi orðuð. Jeg skal geta þess, að þótt mjer sje það ljóst, að margt fleira hefði þurft að taka til rækilegrar athugunar og breyta og bæta við á ýmsa lund, þá skal jeg þó ekki fara frekar út í það, en lofa reynslunni að skera úr og sýna smíðagallana á frv.