19.03.1928
Neðri deild: 51. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

26. mál, byggingar- og landnámssjóður

Gunnar Sigurðsson:

Úr því að jeg stóð upp, vil jeg minnast nokkrum orðum á brtt. hv. 2, þm. Skagf. Tel jeg hana til mikilla bóta og skýringar á lögunum, auk þess, sem þá mun síður ráðist í að byggja nýbýli á óræktuðu landi, þar sem húseign getur orðið alveg verðlaus. Legg jeg því eindregið til, að hún verði samþ.

En það var ræða hæstv. forsrh., sem varð til þess, að jeg kvaddi mjer hljóðs. Það stendur nokkuð sjerstaklega á um mig viðvíkjandi máli þessu. Jeg hefi oft utan þings og innan lýst yfir því, að í raun og veru hafi verið mjög misráðið að taka upp ræktunarsjóð, þótt hann hafi gert nokkurt gagn. Á þingmálafundi í Rangárvallasýslu hefi jeg lýst yfir því, að jeg mundi bera fram þáltill. um að taka mál þetta upp að nýju, og vil jeg því lýsa ánægju minni yfir því, að hæstv. forsrh. segir þess ekki langt að bíða, að það verði gert. Legg jeg mikla áherslu á, að löggjöf landbúnaðarbankans verði sniðin sem mest eftir þessum lögum og þeim greinum, sem til eru, og vona, að málinu verði svo flýtt, að stjórnin leggi frv. fyrir næsta þing, eins og hæstv. forsrh. sagði.