05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1830 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. 2. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Jeg hefi ekki getað orðið samferða hinum tveimur hlutum nefndarinnar um retta mál. Eins og nál. mitt ber með sjer, legg jeg til, að þetta frv. verði samþ. vegna fjárhagsástæðna ríkissjóðs, en þó með þeirri breytingu, að gengisviðaukinn á kaffi og sykri falli úr gildi 1. janúar 1929. Hinar vörurnar, sem gengisviðaukinn hjeldist á, væru þá aðallega munaðarvörur ýmsar, svo sem tóbak og áfengi.

Hinsvegar virðist mjer, að það sje fyllilega kominn tími til að lækka tollinn á kaffi og sykri, sjerstaklega þegar þess er gætt, að upphaflega var aldrei ætlast til, þegar lögin voru sett, að gengisviðaukinn á þessum tveimur nauðsynjavörum hjeldist svo lengi.

Þessi gengisviðauki á kaffitolli er 15 aurar á kg. og á sykurtolli 4 aurar. Með álagningu kaupmanna má gera ráð fyrir, að hann hækki kaffiverðið a. m. k. um 20 aura og sykurverðið um 5 aura. Jeg er þeirrar skoðunar, að ef hægt væri á þessu þingi að finna næga tekjuauka, þá ætti að láta þennan kaffi- og sykurtoll niður falla. Við jafnaðarmenn berum fram frv. um tekjuauka, í Ed. frv. um útflutningstoll á síldarlýsi, og fleiri önnur frv. eru á leiðinni í Nd., svo sem frv. um tóbakseinkasölu og hækkun tekju- og eignarskatts. Verði þessi frv. samþykt, er ekki hægt að bera því við, að ekki fáist tekjur til þess að vega á móti lækkun tolls á þessum tveim vörutegundum, því að þau mundu gefa af sjer um 300 þús. kr. meira en kaffi- og sykurtollur. Og þó að margir tollar sjeu illa látnir meðal alþýðu í landinu, þá hygg jeg, að kaffi- og sykurtollurinn sje verst þokkaður.

Jeg skil það vel, að þeir hv. þm., sem eru í 3. minni hl., hv. 2. þm. G.-K. og hv. þm. Dal., sjeu á móti því að fella niður gengisviðaukann á kaffi og sykri, eftir annari skoðun þeirra á þjóðmálum. En mjer finst næsta undarlegt, að Framsóknarmenn skuli vera á móti því sama.