29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1929

Jón Auðunn Jónsson:

Hæstv. dómsmrh. sneri út úr orðum mínum, þegar hann hafði það eftir mjer, að jeg hefði skrifað öllum kjörstjórnum í Norður-Ísafjarðarsýslu. Jeg sagði, að af því að ómögulegt var að fá eintak af kosningalögunum, þá hefði jeg látið semja útdrátt úr þeim og senda öllum nýjuna kjörstjórnum í sýslunni. Lagði jeg ríkt á við þær að fylgja lögunum nákvæmlega í öllum greinum. Ætti það ekki að sýnast óeðlilegt, þar sem það er vitanlegt, að mjög víða eru formlegir gallar á kosningum til Alþingis og vitað var fyrirfram, að andstæðingar mínir mundu reyna að kæra kosninguna, ef eitthvað væri aðfinsluvert.

Hæstv. ráðh. segir, að Pjetur Oddsson hafi hótað sýslumanni ofbeldi, ef rannsókn gegn hreppstjóranum í Bolungarvík væri haldið áfram. Þetta er alveg gagnstætt sannleikanum. Pjetur Oddsson og aðrir Bolvíkingar mótmæltu fangelsun hreppstjórans að ekki meira rannsökuðu máli. Þannig heimtuðu þeir einmitt frekari rannsókn málsins, en mótmæltu henni ekki.

Hæstv. ráðherra heldur því fram, að uppreisnin í Bolungarvík, sem hann kallar svo, sje mesta pólitíska glæpamálið, sem hjer á landi hafi komið til rannsóknar. Meðan rannsókninni er ekki lokið, kynni jeg betur við, að hæstv. dómsmrh. biði með dóm sinn um málið, jafnvel þótt hann taki sjer dómsvald hjer í þinginu. Hann sagðist hafa haft aðra aðferð við rannsókn þessa máls en áður hafi tíðkast hjer á landi. Menn hjeldu lengi vel, að Halldór Júlíusson hefði sjálfur fengið að ráða rannsóknaraðferðum sínum; en fyrst hæstv. ráðherra lýsir sjálfur yfir þessu, þá er ekki að efa, að hann fari rjett með, og er þá skiljanlegt, að dómarinn beitti nokkuð annari aðferð en venjuleg er við rannsókn sakamála. Hann heldur því fram, að sú rannsókn, sem bæjarfógeti og Steindór Gunnlaugsson framkvæmdu, hafi verið mjög ófullkomin. Halldór Júlíusson ljet þess þó getið, áður en hann byrjaði rannsóknina í Hnífsdalsmálinu, að hún væri í rauninni óþörf, því að hann gæti dæmt í málinu út frá heim gögnum, sem fram hefðu komið við fyrri rannsóknirnar. Máske hefir hann ekki haft leyfi dómsmrh. til þess að láta þetta sitt álit í ljós.

Hæstv. ráðh. vildi gera lítið úr kæru hreppstjórans í Bolungarvík og vjek sjerstaklega að vitnunum tveim, að þau hefðu ekki strax sagt satt. En annað þeirra breytti framburði sínum undir eins, þegar því var bent á eiðinn. Þá sagði það strax satt. Hinu mun aldrei hafa verið bent á eiðstafinn, fyr en það var orðið tvísaga fyrir rjettinum. Jeg vona nú, að hæstv. ráðh. sjái sig um hönd og taki til greina kröfuna um rannsókn gegn rannsóknardómaranum fyrir hið undarlega atferli hans, t. d. það að leggja kjörseðla fyrir vitni og láta þau nota þá sem forskrift, hótanir hans við vitni o. fl.

Hæstv. dómsmrh. segir, að það sjeu ekki aðrir en lítilmenni, sem fari í mál út af blaðaskömmum. Hjerna áður voru þeir Skúli Thoroddsen, Björn Jónsson og fleiri þess háttar menn nógu mikil lítilmenni til að höfða meiðyrðamál. Jeg held, að hæstv. ráðherra mætti þakka fyrir, ef hann yrði nokkurntíma settur á bekk með þeim. Nei, það væri hneyksli að nefna hann, þegar um þá er rætt, nema þá sem mestu andstæðu þeirra að mannkostum og mannviti.

Jeg sá, að hæstv. ráðh. kunni illa tilboði mínu, er jeg gerði honum í kvöld. Jeg skal nú, af því að jeg er altaf samningamaður, draga svo úr því, að hann má halda þingsæti og ráðherrastarfi, þótt jeg vinni málið. Úr því að hann hefir ekki bitið á krókinn, get jeg gjarnan klipið þetta af og látið það eitt eftir standa af beitunni, sem honum ætti að þykja lystugast. Jeg vona, að hann sjái ekki eftir aurunum, sem til þessa fara.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að 6 uppreisnir hefðu verið gerðar í Norður-Ísafjarðarsýslu. Ef satt væri, ætti hann að láta fram fara rannsókn um allar þessar uppreisnir. En hann er að svala rógseðli sínu og því verður ekki neitt úr rannsóknunum. En svívirðilegar og ósannar eru þessar uppreisnarsögur.

Þá vil jeg spyrja hæstv. ráðherra eins. Hann gat þess í gær, að hjá öðrumhverjum útsölumanni Spánarvína væri sjóðþurð. Nú vil jeg vita, hvort útsölumaðurinn á Ísafirði er í þessum fjelagsskap. Mjer kemur það mjög á óvart, ef svo er, og jeg er þess fullviss, að engin sjóðþurð er hjá honum. En hvers vegna hefir hann þá verið sviftur þessu starfi, er enginn veit annað en hann hafi staðið vel í stöðu sinni? Forstjóri áfengisverslunarinnar hefir sagt við mig, að þetta hafi verið einn glöggasti, áreiðanlegasti og besti útsölumaðurinn. Er það ekki enn sem fyr hinn pólitíski rógur samherja dómsmrh., sem leiðir hæstv. dómsmrh. til þess að vinna óhæfuverk?

Hv. þm. Ísaf. (HG) þarf jeg fáu að svara. Hann undirstrikaði flest af því, sem hæstv. dómsmrh. hafði sagt, og sýnist það ekki hafa mikla þýðingu að endurtaka hjer sömu svörin. Hann spurði þó um það, hvers vegna jeg hefði tekið skýrslur af þeim mönnum, sem dómsmrh. hefir nú sakað um uppreisn og ofbeldi í Hnífsdal. Jeg vildi vita vissu mína um, hvað rjett væri. Hv. þm. (HG) vill bera brigður á, að jeg hafi með símskeyti til dómsmálaráðuneytisins heimtað, að rannsókninni yrði haldið áfram. Þetta er ódrengilegt af honum. Dómsmrh. mun vera búinn að sannfærast um, að jeg skýri rjett frá. Þá gefur hann í skyn, að fulltrúi bæjarfógeta hafi við heimakosninguna á Ísafirði 1923 haft læknisvottorð jafnaðarmanna upp á vasann. Þetta er vísvitandi rangt; honum er kunnugt, að kosningasmalar hans (HG) höfðu þau í höndum og útbýttu þeim til kjósenda jafnóðum og kosið var. Honum er líka kunnugt um, að sumir kjósendur neituðu að nota þessi vottorð og kusu á kjörstað. Ennfremur hlýtur honum að vera ljóst, að sumir hafa kosið heima, sem annars hefðu farið á kjörþing, af því að þessir smalar höfðu. vottorðin og jafnvel þrengdu þeim upp á kjósendur.

Þá vítti hv. þm. það, að yfirkjörstjórnin í Norður-Ísafjarðarsýslu hefði ekki viljað brjóta leynd kosningalaganna með því að halda sjer kosningaseðlum úr þeim hreppum, þar sem utankjörstaðagreidd atkvæði frá hreppstjóranum í Hnífsdal voru í kössunum. Í kosningalögunum er fyrirskipað að hella öllum atkvæðaseðlum úr hinum ýmsu kjördeildum í eitt ílát og hrista þá vandlega saman. Bæjarfógetinn hafði líka þann fyrirvara í beiðni sinni „ef fært þykir“. Yfirkjörstjórn áleit sjer þetta óheimilt. Hinsvegar innsiglaði yfirkjörstjórn alla utankjörstaðagreidda atkvæðaseðla úr sýslunni og sendi þá rannsóknardómaranum Steindóri Gunnlaugssyni. Væri vel, ef þessir atkvæðaseðlar hafa ekki síðar farið fleiri manna milli. Á jeg þar við meðferð rannsóknardómarans á þessum sömu seðlum.

Jeg get sagt það, að mjer þóttu það ill tíðindi, ef sönn væru, er jeg frjetti, að beitt hefði verið ofbeldi við lögregluna, þá er fangelsa átti hreppstjórann í Hnífsdal og skrifara hans. Til þess að vita vissu mín fjekk jeg þá alla, sem við voru staddir, til þess að gefa skýrslu um atburðinn, og skrifuðu þeir undir skýrsluna undir eiðstilboð. Er þar tekið fram, að þeir hafi ekki sýnt mótþróa nje haft í hótunum, en aðeins neitað að veita aðstoð sína til handtökunnar. Jeg vissi, að reynt yrði að færa þetta atvik út á verri veg, eins og nú hefir orðið, sbr. ummæli dómsmrh. Annars sýnir það best hug hjeraðsbúa, að enginn þeirra — heldur ekki jafnaðarmenn — vildi aðstoða rannsóknardómarann við fangelsunina, og þegar taka átti jafnaðarmenn í Hnífsdal til þess að fangelsa Eggert og Hálfdán í síðara skiftið, neituðu þeir allir og vildu heldur borga sekt, ef til kæmi.

Um brot það, er hv. þm. telur, að jeg hafi framið á kosningalögunum 1924, þá er því til að svara, að það var ekki jeg, heldur form. kjörbrjefanefndar, sem opnaði kjörbrjefið, og var því ekki mótmælt af öðrum en hv. 2. þm. Árn. (MT). Þessi hv. þm. vill gjarnan aðstoða dómsmrh., en honum tekst það að vonum ófimlega, því efni standa ekki til.

Þá vildi hv. þm. (HG) sverja fyrir; að sagan um þvottakonuna og fiskverkunarkonuna væri sönn. En það er þýðingarlaust, því að þetta er á margra vitorði.

Að kjörstjórnin í Hafnakjördeild fór að semja nýja kjörskrá, er hvorki undarlegt nje óskiljanlegt. Hún vildi með því sýna yfirkjörstjórn, sem hún sendi þessa nýju kjörskrá ásamt umkvörtun um frágang hreppsnefndar á kjörskrá þeirri, sem kosið var eftir, svart á hvítu, hve óvandlega væri frá kjörskránni gengið.

Mjer fanst hv. þm. vanþakka um of gerðir bæjarfógetans á Ísafirði viðvíkjandi atkv. konunnar frá Hraundal. Hann hjelt vitanlega, að kærendur mundu standa við orð sín, ef til rjettar kæmi. Þeir höfðu sem sje kært yfir því, jafnaðarmenn, að atkv. þessarar konu væri falsað, af hreppstjóra Jóni Fjalldal, Sigurði Kristjánssyni eða íhaldsskrifstofunni. Vegna þess að bæjarfógetinn hafði ekki heimtað. skriflega kæru af þessum herrum, var ekki hægt að fá þá dæmda fyrir ósvífnina. Háttv. þm. (HG) var ekki kunnugt um, hvort rithönd konunnar hafi verið á atkvæðaseðlinum. En konan kannaðist við það. — Að atkvæðið hafi verið endurfalsað, nær engri átt, því að íhaldsskrifstofan var búin að senda atkvæðið til bæjarfógeta löngu áður en menn gat grunað, að sent mundi verða eftir konunni. Þá gat ekki grunað, að einum degi síðar yrði sent eftir henni og atkvæðið brotið upp. Þessi aðdróttun hv. þm. er svo lubbaleg og ósönn, að furðu gegnir.

Það var nokkur sannleikur í því hjá hv. þm., að mjer sjálfum persónulega mundi ekki hafa verið ógeðfelt að leggja út í nýja kosningahríð í Norður-Ísafjarðarsýslu. Það var mjer ekki ógeðfelt. En hinsvegar vænti jeg þess, að hv. þm. skilji, að jeg hafi ekki gjarnan viljað ota kjósendum út í kosningar um hávetur eins og háttað er vestur þar, ef svo kynni að fara, að jeg fengi ekki þingsætið gagnsóknarlaust, en á því gat leikið vafi, þó margt bendi til, að svo hefði nú orðið. Jeg taldi mjer líka skylt, að kjósendur fengju að sjá, hvort jafnaðarmenn á þingi, með aðstoð dómsmrh., gætu leitt Framsóknarmenn út í hvaða svívirðu sem vera skyldi.

Mjer þykir það undarlegt, að ekki skuli hafa verið hægt að fá jafnaðarmenn í Norður-Ísafjarðarsýslu til þess að kæra kosninguna, og þó mun hæstv. dómsmrh. hafa sagt hv. þm. Ísaf., að sjálfsagt væri að koma með kosningakæru, ef nokkuð ætti að gera í þessu máli. En ástæðan er sú, að þrátt fyrir ofurkapp þeirra, sem vilja gerast foringjar Norður-Ísfirðinga, þá munu kjósendur þar halda sæmd sinni, þó að sje sorfið.

Annars gat hv. þm. þess, að hann væri ánægður með þau 11 atkvæði, sem hann gat fengið til þess að vera á móti því að taka kosninguna gilda. Hann vill telja, að 19 atkv. hafi verið á móti. Reyndar hefir það verið venja hjer á þingi að telja þá, er greiða ekki atkvæði, til meiri hl. En vel má vera, að hv. þm. vilji nú breyta þeirri venju.

Að öðru leyti sje jeg ekki ástæðu til þess að fjölyrða meira um þetta mál að sinni, en vænti þess, að hæstv. forseti veiti mjer nokkrar mínútur til umráða síðar, ef mjer þætti þörf á vera.