14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1837 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Hv. 6. landsk. vil jeg segja það, að jeg er í raun og veru sammála honum um það, sem virtist vera kjarni málsins í ræðu hans, að mannkynið sje ekkert bættara fyrir nautnavörurnar: vín, tóbak og kaffi.

Frá leikmannssjónarmiði finst mjer því, að hann hafi gert hjeraðsbúum sínum gott með því að gera sitt til þess að venja þá af notkun þessara vörutegunda. En eins og nú er ástatt, þá eru vörur þessar, að undanteknu víninu, keyptar á hvert einasta heimili eins og til dæmis mjölvara og fiskur, og þeim venjum verður ekki breytt, nema líklega helst með sjerstakri fræðslu um þessi efni. Það er því mín skoðun, að þjóðin verði ekki vanin af neyslu þessara vara, þó að hár tollur sje á þær lagður.

Annars er það svo, að læknastjettin hefir yfirleitt gert of lítið til þess að fræða almenning um þessi efni, enda þótt einstöku læknar hafi unnið töluvert í þá átt, eins og t. d. hv. 6. landsk.

Hv. 3. landsk. vil jeg svara því, að þar sem þessi hv. deild er búin að hækka álögurnar til muna, líkt og gert var í stjórnartíð hans, þá er það ekki nema í samræmi við það, sem hann ljet gera þá, sem sje að fella niður kornvörutollinn, þó að þessi litla lækkun á kaffi- og sykurtolli, sem hjer er farið fram á, verði tekin til greina.