14.03.1928
Efri deild: 47. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Jónas Kristjánsson:

Það er ofureinfalt að benda á, hvað eigi að koma í staðinn fyrir kaffi og sykur. Í staðinn fyrir kaffi má drekka vatn og mjólk og í stað sykurs má borða þær matvælategundir, sem sykur er í, sem er alt kálmeti og korntegundir. (EF: Með öðrum orðum, fólkið á að lifa á vatni og brauði í staðinn fyrir kaffi og sykur). Já, það má gjarnan kalla það svo. Nú er flutt hjer inn 36 kg. af sykurefnum á hvert nef landsmanna, og það er eins mikið og í þeim löndum, sem mest er notað af þessum efnum. Slík eyðsla er úr hófi fram og meiri en efnaleg og líkamleg heilsa landsmanna leyfir. Það er því ekkert undarlegt, þó að læknar vari við þessu.

Annars má líka í þessu efni benda á lifnaðarhætti manna fyrir 50–70 árum; þá var í mesta lagi keypt 1–2 pd. af kaffi á ári fyrir stærstu heimili, og komst þó alt af ekki síður en nú. Jeg skil því ekki, hvers vegna ekki má stemma á að ósi í þessum efnum, þegar hægt er að benda á annað í staðinn, sem að öllu leyti verður að teljast betra.