23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1842 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. 3. minni hl. (Ólafur Thors):

Jeg hefi borið fram brtt. við þetta frv. eins og það kemur frá hv. Ed., þess efnis, að 2. gr. falli niður. Hv. Ed. hefir breytt frv. frá því, sem var, er það var afgreitt frá þessari hv. deild. Ed. hefir felt niður gengisviðauka á kaffi- og sykurtolli.

Jeg tel óþarft að fjölyrða um mína brtt., af því að hv. Nd. hefir áður fjallað um málið, og till. mín gengur í þá átt að færa það í sama horf og hv. deild skilaði því í hendur hv. Ed. Það er ekki nema liðugur mánuður síðan hv. 2. þm. Reykv. bar fram till. þess efnis, að gengisviðauki á kaffi- og sykurtolli skyldi niður falla. En hv. Nd. feldi þá till. að viðhöfðu nafnakalli með 20:5 atkv. Jeg var ekki staddur í deildinni, er þessi atkvgr. fór fram, og minn vilji hefir því ekki komið í ljós fyr en í þessari brtt., sem er algerlega í samræmi við álit meiri hlutans í þessari hv. deild. Að jeg verð nú til þess að flytja þessa brtt., er til þess að taka ómakið af hinum, sem þegar eru búnir að láta í ljós vilja sinn um þetta atriði, og til þess að skjalfesta skoðun mína á því sama atriði.

Jeg get ekki hugsað mjer, að menn skifti svo um skoðun á skömmum tíma, að það þurfi að gera ráð fyrir, að þessi brtt. mín verði feld. Hún fer aðeins fram á, að Nd. staðfesti, að gefnu tilefni, þann dóm, sem deildin hefir þegar kveðið upp um þetta atriði.