23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1848 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg býst við, að hv. 1. þm. Reykv. verði að reka sig á það í ýmsu nú um hríð, að alt verði ekki talið algilt, sem áður hefir verið talið gott og gilt. Eftir að Íhaldsflokknum hefir nú verið velt úr völdum, þarf engan að undra, þótt ekki verði farið eftir hans stefnu. Það er alment álitið, að það eigi eftir megni að ljetta tollum af nauðsynjum, og þessi tollur kemur mjög hart niður á fátækari hluta þjóðarinnar. Jeg slæ því líka föstu, að aðstaðan er nú breytt til hins betra, á þá leið, að það er nú nokkurn veginn trygt, að nægar tekjur fáist í ríkissjóðinn.