23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1853 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. 1. minni hl. (Hannes Jónsson):

Jeg verð að lýsa yfir því, að mjer þykir gott að heyra það, að allir íhaldsmenn, sem talað hafa, virðast vera því mjög fylgjandi, að ríkissjóður njóti allra þeirra tekna, sem hægt er að afla. Jeg skal einnig lýsa því yfir strax, að jeg kunni að hafa misskilið eitthvað hv. formann nefndarinnar, því eins og hann tók fram, þá áttum við aðeins lauslegt tal um þetta mál, og að sjálfsögðu hafa allir nefndarmenn óbundin atkvæði.

Jeg sagði það, að jeg myndi sætta mig við þessa ráðstöfun hv. Ed. á málinu, þótt jeg sje ekki ánægður með hana að öllu leyti. Jeg skal samt taka það fram, að þetta álit mitt byggist aðallega á því, að jeg tel, að við megum ekki sleppa neinum þeim tekjum, sem hægt er að ná í, jafnvel þó að þær megi eitthvað órjettlátar heita, og um sykurtollinn vil jeg taka það fram, að jeg er fyrir löngu kominn að þeirri niðurstöðu, að hann sje einna órjettlátastur af öllum tollum, þegar á það er litið, að eitt kiló af sykri kostar 40 aura erlendis, en tollurinn af því verður um 50%. Það er því orðinn allverulegur tollur á vöru, sem jafnmikið er notuð eins og tilfellið er með sykur. Jeg mun því fylgja fram frv. eins og það nú er, þrátt fyrir það, þótt hv. 2. þm. G.-K. hafi komið fram sem nokkurskonar umboðsmaður Íhaldsflokksins, eða þess hluta hans, sem nú á sæti í Ed., um að standa saman á móti frv. Jeg hefi að vísu enga ástæðu til að rengja þetta, en dálítið undarlegt er það þó, vegna þess að við þær umr., sem hjer fóru áður fram í deildinni um þetta mál, þá greiddu tveir flokksbræður þessa hv. þm. (ÓTh) atkvæði með þeim brtt., sem fram komu við 2. umr. málsins, en það voru þeir háttv. þm. Barð. og hv. þm. Vestm., svo að jeg sje, að þessi breyting á frv. á líka ítök í Íhaldsflokknum. En það má vel vera, að meiri hl. flokksins vilji heldur halda þessum lögum óbreyttum eins og þau eru nú, eins og hv. 2. þm. G.-K, tók fram.

Jeg hefi svo ekkert frekar um þetta að segja, en jeg get tekið það fram aftur, sem jeg sagði áðan, að helst hefði jeg kosið, að frv. hefði verið samþykt óbreytt í Ed., og stafar það af því, að jeg álít, að ríkissjóður hafi fylstu þörf tekjuauka fyrir það, sem hann missir, en ekki af því að jeg telji þennan toll svo rjettmætan, því að jeg viðurkenni það, að sykurtollurinn er að hundraðstölu órjettmætur. Kaffitollurinn er, þótt órjettmætur sje, nokkru skárri.