29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

1. mál, fjárlög 1929

Pjetur Ottesen:

Jeg þarf ekki að kvarta undan því, að jeg hafi ekki fengið svör hjá hæstv. stjórn við þeim spurningum, er jeg bar hjer fram.

Hæstv. forsrh. sagði, að styrk þann, er hann veitti til atvinnubóta nú í vetur, hefði hann veitt samkv. fordæmi frá fyrv. stjórn, er hefði veitt miklu hærri styrk, milli 20 og 30 þús. kr., í sama skyni í fyrravetur. Jeg held nú, að þessi upphæð hafi ekki verið svona mikil, en fullyrði þó ekki um það. En atvikin til þess, að sá styrkur var veittur, eru þau, er nú skal greina: Í fyrravetur samþykti bæjarstjórnin í Reykjavík að leggja fram fje til atvinnubóta, en einskorðaði úthlutun þeirrar vinnu, er framkvæma átti fyrir það fje, við þá menn eina, er sveitfesti áttu í Reykjavík. Þeir, sem áttu sveitfesti annarsstaðar, voru því útilokaðir frá þessari vinnu. Það varð því ofan á, að til þess að þeim væri líknað líka, þá lagði stjórnin þessa upphæð til atvinnubóta handa þeim. Úthlutun þessarar vinnu var svo ekki falin einum manni, heldur fátækrafulltrúunum í Reykjavík. En á þessum vetri hefir ekkert fje verið lagt fram til atvinnubóta frá bæjarfjelaginu hjer, og þetta fje því veitt úr ríkissjóði án þess að bæjarstjórnin teldi þörf á slíkri vinnu nú. Meðferð þessa fjár var svo falin vegamálastjóra, en einn þm. sósíalista látinn velja menn til vinnunnar. Þessi styrkur er því til orðinn fyrir atbeina jafnaðarmanna og ber því á sjer fullkominn pólitískan jafnaðarmenskublæ. —

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði um þá heimild, er hann þóttist hafa til að stofna fje ríkisins í hættu til að halda genginu föstu, þar sem hann kvaðst bæði hafa slíka heimild og telja sjer skylt að beita henni, ef á þyrfti að halda, þá hvika jeg ekki frá því, að slík heimild er alls ekki fyrir hendi, nema ný samþykt um þetta fari fram. En ef þetta er nú skoðun hæstv. forsrh., að hann hafi þetta vald og ætli að beita því, þá hefir hann líka alveg skift um skoðun síðan 1926, því þá vorum við sammála um það, að of djarft væri teflt með því að setja fje ríkissjóðs í þá hættu, sem af því gæti stafað að halda genginu föstu. Jeg ítreka það því, að nú liggur ekki fyrir nein þingsamþykt, sem heimilar stjórninni þetta.

Til sönnunar því, að hæstv. forsrh. hafi skift um skoðun í þessu máli síðan 1926, vil jeg benda á, hvaða skilning flm. þeirrar dagskrártillögu, sem gengismálið var þá afgreitt með, lagði í tillöguna, og ummæli tveggja þm. um þetta atriði, þeirra 2. þm. G.-K. og núverandi forsrh. Tillögumaður kemst svo að orði:

„Að endingu skal jeg taka það fram, að það felst ekki í till. minni nein heimild til þess að setja neitt af fje ríkissjóðs í hættu í þessu augnamiði. Hvað sem stjórnin kann að gera í því efni, gerir hún það algerlega á sína eigin ábyrgð“. (Alþt. 1926, C. bls. 771).

Hv. 2. þm. G.-K. tekur algerlega í sama streng, þar sem hann í næstu ræðu telur alt of mikla áhættu að gefa leyfi til að verja fje úr ríkissjóði takmarkalaust til að fyrirbyggja lækkun krónunnar. Og í sambandi við þetta álit hv. 2. þm. G.-K. segir svo núverandi forsrh. í ræðu, er hann heldur síðar í sama máli:

„Þá vil jeg vekja athygli á því, sem háttv. 2. þm. G.-K. tók fram og lagði áherslu á, að ekki skyldi kosta neinu til vegna gengisráðstafana. Þetta vil jeg undirstrika, og eins það, að háttv. flm. dagskráninnar ber þetta sama fram. Þetta verður því að telja sem ákveðinn vilja deildarinnar, sjerstaklega er menn minnast afgreiðslu þessa máls hjer við 2. umr.“ (Alþt. 1926, C. bls. 782). — Hjer skýtur því nokkuð skökku við um skoðun hæstv. forsrh. nú og þeirrar, sem hann hafði 1926, og ætla jeg, að með þessu sje fullsannað, að hann hefir skift um skoðun á þessu atriði.

Hæstv. dómsmrh. segir, að það sje samkv. ósk hæstarjettar, að stjórnin hefir brotið ákvæði fjárlaganna með því að greiða hæstarjettarritara hærri laun síðan á nýári en fjárlög heimila. Hann sagði, að þingið hefði í hendi sinni að lækka launin í fjárl. 1929. Já, það veitir víst ekki af því, að þingið geri áminningu um þetta aftur. En það hefir ekki mikla þýðingu, ef áminningar þingsins eru að engu hafðar, eins og hjer hefir átt sjer stað.

Þá gaf sami hæstv. ráðh. svar viðvíkjandi fyrirspurn minni um starfsmannaaukningu ríkisins. Hann sagði, að 3½ starfsmanni hefði verið bætt við í kaupstöðunum, einum í hverjum. Jeg skal nú ekki dæma um það, hvort þessi upptalning er rjett, en jeg skal geta þess, að eftir þeim upplýsingum, sem jeg hefi getað aflað mjer, þá mun vera búið að borga þessum mönnum á 4 mánuðum 4100 kr. En sagt er, að auk þess hafi verið bætt þremur mönnum við tolleftirlitið hjer í Reykjavík, með 300 kr. launum á mánuði. Jeg býst við, að maður megi vona, að hjer sje líka um bráðabirgðaákvæði að ræða. Þá hefir það og komið í ljós, að hæstv. forsrh. hefir líka bætt við manni, einskonar litlum utanríkisráðherra. — Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Jeg hefi fengið upplýsingar viðvíkjandi spurningum mínum, þó jeg búist við því, að þær sjeu ekki vel nákvæmar frá hæstv. dómsmrh.; að því er starfsmannafjölgun viðkemur að minsta kosti, þá hygg jeg, að ekki komi öll kurl til grafar.