23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1858 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Magnús Guðmundsson:

Hæstv. forsætisráðherra vildi halda því fram, að mjer skildist, að það væri besta sönnunin fyrir því, að það ætti að lækka sykurtollinn meira en nú er, að það hefði verið undan felt á síðustu þingum að hækka hann. Jeg get nú ekki sagt, að það sje sönnun fyrir því, að ívilna eigi ennþá meira, þótt ívilnað hafi verið áður, og það er ekki hægt að neita því, að sykur er alt of mikið notaður hjer á landi, enda er það viðurkent af hv. form. fjhn. (HStef), og þess vegna dugir ekki að vísa til þess, að þetta sje nauðsynjavara, enda eru hjer á landi tollaðar nauðsynjavörur, sem eru alls ekki minna áríðandi heldur en sykur.

Svo er baktjaldasamkomulagið. Hæstv. forsrh. viðurkendi, að það hefði verið samkomulag um það á milli þeirra flokka, sem styðja stj., hvaða mál ættu að ganga fram, og var að benda okkur á, að Íhaldsmönnum færist ekki að vera að stökkva upp á nef sjer út af þessu, því að það værum ekki við, sem ættum að ráða. Jeg hjelt nú samt, að þótt við værum í minni hl. á þingi, þá ættum við þó okkar skoðanir og mættum greiða atkv. Jeg álít það auk þess of langt gengið að auglýsa það blátt áfram, að á bak við tjöldin sje því fyrst slegið föstu, hvað af málum eigi að ganga fram. En jeg vildi þá gjarnan spyrja hæstv. forsrh., úr því að hann er á annað borð svona opinskár, hvað jafnaðarmenn eiga þá að fá í staðinn. Hvaða laun þeir fá fyrir þægðina, og hvað Framsóknarmenn fylgja þeim í mörgum málum í staðinn.

Hæstv. ráðh. sagði það beinlínis, að Íhaldsmenn væru að tefja þingið með óþarfa umr. Jeg neita því algerlega, að nokkur fótur sje fyrir þessu, en hitt er það, að við teljum okkur heimilt að láta uppi okkar skoðanir, og jeg er alveg óhræddur við að bera það saman, hvernig við tölum hjer og vinnum í nefndum, samanborið við vinnubrögð á undanförnum þingum, enda mun hægt að sýna fram á ýmislegt í þeim efnum.

Hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að það væri undarlegt, að við vildum nú láta þungamiðju þessa máls vera í Nd., þar sem við vildum í fyrra samþykkja það, að frá fjárl. skyldi gengið eins og þau komu þá frá Ed. En hv. þm. ætti þó að muna það, þar sem hann átti hjer sæti í fyrra, að þrátt fyrir það, þótt stj. væri í minni hl. í Nd., voru þó feldar allar brtt., sem fram komu við frv. í fyrra ; það var þó ekki svo, sem það væri bannað að bera fram brtt., þær komu fram, en voru feldar, og þess vegna var frv. samþykt eins og það kom frá Ed. En það var alveg rjett, að stjórnarflokkurinn stóð á móti öllum breytingum, en það er samt svo fjarri því, að það væri nokkurntíma viðurkent af Íhaldsflokknum, að efri deild ætti að hafa meira að segja í fjármálunum heldur en neðri deild.

Hv. þm. var líka að gorta af því, að hann og hans flokksmenn hefðu nú öll ráðin í tollamálunum. Já, við vitum það, en hv. þm. þarf ekki að vera að lýsa yfir því, hvað eigi að samþykkja og hvað ekki. Við Íhaldsmenn erum farnir að sjá það. En mjer þykja þessir styrktarmenn stjórnarflokksins, jafnaðarmennirnir, nokkuð harðir við stj., þegar þeir heimta, að hún gangi á móti mikilsvarðandi atriðum í þessu frv., sem hún hefir sjálf lagt fram í þinginu.

Hv. þm. (HjV) vildi efast um það, að jeg hefði skýrt rjett frá afstöðu hæstv. fjmrh. Jeg sagði ekki annað en það, að jeg byggist við, að hæstv. ráðh. myndi standa við það, sem hann hefði borið fram. (HjV: Nú er háttv. þm. kominn á flótta). Hefir hv. þm. nokkuð að flytja frá hæstv. ráðh. í þessu máli? Jeg hefi sagt, að jeg treysti því, að hann standi við það, sem hann hefir borið fram, og jeg hefi það traust á hæstv. ráðh., að hann standi betur en flestir aðrir við það, sem hann ber fram.