23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1867 í B-deild Alþingistíðinda. (905)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Magnús Guðmundsson:

Jeg skal ekki karpa um nauðsyn sykursins við hæstv. forsrh. Flestir munu viðurkenna, að það sje notað meira en nauðsyn ber til.

Það má vel vera, að búið sje að ráða máli þessu til lykta bak við tjöldin; þarf þá ekki að segja meir. En það er þó hart að vilja meina andstæðingunum að tala um málin í deildinni. Þetta hefir gengið svo langt, að hæstv. forsrh. hefir skipað hæstv. forseta að slíta umr., eftir að menn höfðu kvatt sjer hljóðs. Þetta hefir komið fyrir mig.

Hæstv. ráðh. nefndi tóbakseinkasöluna og fjáraukalögin miklu. Ferst honum varla að álasa mjer, þar sem nú líður varla mánuður milli þess, að hann greiðir atkv. í sama máli og þó sitt á hvorn hátt. En það liðu fimm ár milli þess, að jeg greiddi atkv. með tóbakseinkasölunni og þess, að jeg ljet vera að greiða atkv. um hana. Þetta er aðalvopn hæstv. forsrh. á mig. Held jeg, að jeg standi jafnrjettur eftir. En það mætti þá spyrja hann, hann, sem telur tóbakseinkasölu lífakkeri þjóðarinnar, hvers vegna hann tekur hana ekki upp, úr því að hann gortar af því, að hann ráði, þótt hann ráði reyndar engu og geri ekki annað en lyppast niður eins og ullarlopi fyrir sjer meiri manni, en ekki betri. Af hverju tekur hann hana ekki upp? Er það ekki af því, að hann hefir ekki jafnbjargfasta sannfæringu á ágæti hennar og hann vill láta sýnast? Meðan hann sýnir ekki trú sína í verkunum, þá verður honum ekki trúað.

Hann var að brigsla mjer um, að jeg rækti illa þingstörfin og ljeti málfærslu mína úti í bæ tefja mig. En þegar búið er að ákveða, hvað gera skuli og hvað ekki, bak við tjöldin, þá hefir það harla litla þýðingu. Ekki mun hann hafa þá ánægju af að heyra mig tala, að það taki því þess vegna. Annars vil jeg benda honum á, að jeg er hjer fult eins mikið og hann og mun rækja þingstörf mín fullkomlega á við það, sem hann rækir sín störf.

Hæstv. ráðh. var að vara mig við að nefna mig við hliðina á núverandi fjmrh. Jeg hjelt þó, að óhætt væri að líta á kónginn. Þegar fjáraukalögin miklu, sem hæstv. ráðh. nefnir svo, voru til umr. á þingi 1923, var hæstv. fjmrh. einn í nefnd þeirri, sem athugaði þau. Hver var þá hans dómur um þau? Nefndin var á einu máli um það, að umframgreiðslur hefðu ekki verið meiri en við var að búast. Allir þm. voru á einu máli um það. Hæstv. ráðh. fjekk ekki einn einasta á sitt mál þá.

Hæstv. ráðh. sagði, að er jeg ljet afnám tóbakseinkasölunnar hlutlaust, hafi ekki verið sjeð fyrir neinum tekjuauka í staðinn; en þetta er rangt, því að samtímis var tollurinn hækkaður. Í sambandi við það lýsti hann yfir því, að nú lægju nóg tekjuaukafrv. fyrir þinginu. En hvaða tekjuaukafrv. hafa komið fram, síðan hæstv. ráðh. greiddi atkv. síðast um þetta frv. hjer í deildinni? Engin. (Forsrh. TrÞ: Vissa um, að þau verði samþykt, hefir komið fram síðan). Já, baktjaldasamningarnir við jafnaðarmenn hafa tekist síðan, með þeim úrslitum, að stj. og Framsóknarflokkurinn hefir látið svínbeygja sig svo, að þeir ætla að greiða atkvæði ofan í sjálfa sig. Það er því von, að hæstv. forsrh. sje hnakkakertur yfir valdi sínu. Nei, valdið er ekki hjá honum, það er hjá jafnaðarmönnum. Hæstv. forsætisráðh. má því ekki hreykja sjer hátt. Hann er að gera það, sem er miklu verra en það, sem jeg gerði, þegar um tóbakseinkasöluna var að ræða. Það líður mánuður á milli þess, að hann breytir um skoðun, en hjá mjer liðu fimm ár, án þess þó að jeg greiddi atkv. með afnámi einkasölunnar; jeg ljet það hlutlaust. Eftir þessu er þá hæstv. forsrh. 60 sinnum verri en jeg.