23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1871 í B-deild Alþingistíðinda. (907)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Hákon Kristófersson:

Jeg ætlaði mjer að láta þessa umr. alveg hlutlausa. En það er eins og fyr, að hæstv. forsrh. hefir ekki treyst sjer til að haga orðum sínum svo, að fara ekki með bæði brígslyrði og ósannindi. Hann sagði nefnilega um okkur Íhaldsmenn, að við værum þektir að því að greiða atkvæði sitt á hvað. Jeg vísa þessum ummælum fyrst og fremst hvað mig snertir — og einnig eftir þeim kunnugleika, sem jeg hefi af mínum flokksbræðrum — heim til föðurhúsa sem algerðum ósannindum. Er ilt til þess að vita, að slíkt komi úr þessu sæti, og það frá þeim manni, sem hefir ekki verra innræti en hæstv. forsrh. hefir; en það er hans veiklyndi. sem gerir það að verkum, að hann fer út fyrir þá braut velsæmis í orðhætti sem hann ætti að halda sig á.

Jafnframt lýsi jeg það ósatt — eftir þeim kunnugleika, sem jeg hefi af Íhaldsflokknum —, að samkomulag hafi verið að standa á móti nauðsynlegum tekjuaukafrv.

Hæstv. ráðh. var að tala um einhver óviturra manna ráð, sem við tökum Íhaldsmenn. Þetta geta náttúrlega þeir vitru menn sagt, og mun víst hæstv. forsrh. telja sig manna færastan að vigta á vogarskálum vitsmuni manna, — bara að reisla hans reynist nú ekki eitthvað geggjuð, ef um andstæðinga er að ræða.

Þar sem hann benti á, að hann og hans stuðningsmenn vildu taka til sinna ráða gagnvart okkur Íhaldsmönnum, hvað sem við segðum, þá er það ekki annað en það, sem minni hl. á hverjum tíma verður að þola og sætta sig við. En hitt ber ekki að sætta sig við, að vera borinn ósönnum brigslum. Hæstv. forsrh. hefir hvað eftir annað beint því til okkar Íhaldsmanna, að við ættum allmikinn þátt í að lengja þingtímann. Jeg man ekki eftir því, þegar hæstv. ráðh. var í minni hl., að hann skirrðist við að halda mjög margar og langorðar ræður í ýmsum málefnum, og man heldur ekki eftir hinu, að þáverandi stj. leyfði sjer að sýna honum þá óvirðingu að segja við hann, að hann ætti að vera hjer sem þegjandi þm. En þegar slíkt kemur frá hæstv. stj., að hún segir hv. þm. beint eða óbeint að þegja um þau ýmsu málefni, sem fyrir liggja, þá þýðir það ekki annað en það, að þeir skuli ganga athugasemdalaust að öllu því, sem hinn háttv. meiri hl. kann að bera á borð fyrir þá.

Þetta er annars ekki ný bóla, — og mjer sárnar við hæstv. forsrh., og mest af því, að jeg ber svo djúpa virðingu fyrir þeim manni að ýmsu leyti (ÓTh: Ha!) sem „prívat“-manni —, að hann komi með þessi órökstuddu ummæli í garð okkar Íhaldsmanna. Hann hefir leyft sjer að bera þau ósannindi á borð fyrir alþjóð, að við hefðum staðið fyrir hagfeldum framgangi kjöttollsmálsins sæla. — Hæstv. ráðh. veit, að jeg sagði þetta satt um ummæli hans, því að flokkurinn var einhuga að hníga að því ráði, sem hagkvæmast þótti. Skyldi nú þetta ekki líkjast eitthvað ábyrgðarleysi, þegar ritstjóri landsmálablaðs leyfir sjer að prenta slík ósannindi um andstæðinga sína? Mörgum munu í minni þau svörtu ósannindi, sem hvað eftir annað stóðu í þessu blaði hæstv. forsrh., að Íhaldsflokkurinn hefði gefið eftir útgerðarmönnum 613 þús. kr., og var þá ekki sparað feita letrið. En það vildi svo heppilega til, að annar meðritstjóri blaðsins hafði undirskrifað nál. í Ed., þar sem hann gat þess, að ósannað væri, að þessi upphæð mundi tapast.

Það er ekki í fyrsta sinn, sem hæstv. forsrh. minnist á tóbakseinkasöluna. (Forsrh. TrÞ: Og verður ekki í það síðasta!). Nei, jeg bjóst við því. Þá þekki jeg vin minn illa, hæstv. ráðh. Jeg ætla alls ekki að fara að taka svari hv. 1. þm. Skagf.; hann er fullkomlega fær að svara. En jeg skal geta þess, að jeg álít þá tillátssemi hans virðingarverða að láta undan öllum sínum stuðningsmönnum, þegar sýnt var fram á, að ríkissjóður mundi ekki bera minna úr býtum, ef einkasalan væri afnumin, svo sem reynslan hefir nú leitt í ljós. Og jeg tel það alveg óframbærilegt að segja, að menn greiði atkv. sitt á hvað í máli, þó að þeir að mörgum árum liðnum sjái, þegar reynslan fer að tala, að eitthvað annað henti betur. Jeg býst við, að al]ir hv. þdm. hafi þá sögu að segja, að við höfum löngum gert ýmsar ákvarðanir, bæði í einkamálum og opinberum málum, sem hafa ekki í öllu reynst þær heppilegustu; þá föllum við vitanlega frá fyrri aðstöðu, og veit jeg ekki til, að það sje vandi vel hugsandi manna að lá nokkrum slík sinnaskifti.

Hv. 2. þm. Skagf. hefir borið hönd fyrir höfuð sjer og hv. þm. Borgf. út af þeim hörðu orðum, sem hæstv. ráðh. hefir hvað eftir annað látið falla í garð þeirra, og þarf jeg því ekki að minnast á þau. Maður ætti að mega vænta þess, að þeir, sem eru svo gjarnir að vanda um við aðra, vandi sitt framferði sem allra best. Og viðvíkjandi umvöndun hans og ábyrgðartilfinningu hans sjálfs vil jeg vona það, að honum verði það brátt ljóst, að það er mikilsvarðandi, að menn í æðstu sætum sjeu ekki að brýna þær dygðir fyrir öðrum, sem þeir sjálfir hafa ekki verulegar mætur á.

Jeg verð að segja, að sú tillátssemi, sem hv. 1. þm. Skagf. — þá ráðh. — sýndi okkur flokksmönnum sínum, hún var þess eðlis, að ef hann hefði ekki getað gengið inn á okkar skoðun, hefðum við ekki sjeð okkur fært að styðja hann sem ráðherra. Er þessi tillátssemi dálítið ólík og hjá mínum góða vini, hæstv. forsrh., þegar hann gengur frá sínu frv., sem jeg leyfi mjer að kalla svo, enda þótt hæstv. fjmrh. beri það fram. Jeg held það hefði farið betur á því, að hann hefði farið til mín og annara góðra manna og spurt, hvort þeir vildu sýna sjer hlutleysi, ef ekki stuðning, heldur en eiga sæti sitt undir þeim mönnum, sem hann er kúgaður af.

Jeg mun nú ekki tala meira að sinni; jeg hefi reynt að vísa frá mjer þessum ómaklegu aðdróttunum, sem jeg bjóst ekki við í minn garð frá hæstv. forsrh. Ef hann hefði tilgreint einhver nöfn, sem ummæli hans hefðu átt við, hefði jeg getað gengið framhjá þeim, en þar sem hann bregður Íhaldsflokknum í heild sinni um drengskaparleysi, finn jeg ástæðu til að mótmæla. Verst þykir mjer, ef jeg hefi með þessu orðið til þess að lengja þingtímann frekar en hæstv. forsrh. þætti vel við eigandi; því að vitanlega vildi jeg sýna honum hjástöðu mína í öllum góðum málum, — en hann leiti til annara í hinum.