23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1876 í B-deild Alþingistíðinda. (909)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Frsm. 2. minni hl. (Hjeðinn Valdimarsson):

Hv. 1. þm. Reykv. þykir sykurtollurinn koma jafnt niður. Eftir sykurneyslu í landinu munu fara um 50 kr. í toll á hverju heimili, og með þeirri álagningu, sem vænta má í búð, verður þetta um 60 kr. Geri maður ráð fyrir, að sykurneyslan sje æðimiklu meiri í kaupstöðum en í sveitum, kemur upp í það, að skattur, sem ríkissjóði er borgaður af þessari vöru, verður um 80 kr. við sjávarsíðuna.

Nú sjá það allir, hver munur er að taka slíkan skatt af fimm manna fjölskyldu, þar sem tekjurnar eru ekki nema 2000–2500 kr., af embættismönnum, sem hafa 7500–8000 kr., eða í þriðja lagi af þeim, sem hafa 15–20 þús. kr. tekjur eða þaðan af meira. Jeg vil aðeins benda á, hversu þessi skattur kemur mismunandi niður í hlutfalli við tekjurnar. Verkamaðurinn borgar þrefalt eða fjórfalt meira en embættismaðurinn, og embættismaðurinn borgar tvöfalt, þrefalt eða margfalt meira en sá, sem hefir tekjur af verslun eða atvinnurekstri. Þannig lendir sykurtollurinn, eins og aðrir nefskattar, langþyngst á fátækasta hluta þjóðarinnar. Ef yfirleitt á að ganga út frá, að jafna eigi sköttum eftir efnum og ástæðum, þá er ekki hægt að finna órjettlátari toll en sykurtoll, sem lendir á sjávarsíðunni mestmegnis og þar á fátækasta fólkinu. Þetta veit jeg, að hv. 1. þm. Reykv. skilur eins vel og jeg, þó að hann hugsi ekki um það nógu vel, hvað það er ranglátt.

Hv. 1. þm. Skagf. vildi halda fram, að sykur væri alls ekki nauðsynjavara, eða a. m. k. ekki svipað því eins nauðsynleg og hún er mikið notuð. Jeg vil beina þeirri fyrirspurn til hv. þm. — (MG: Jeg er dauður!). Jeg vil þá benda hv. þm. á, að fólk við sjávarsíðuna getur ekki fengið mjólk með því verði, að það standist við að kaupa hana, svo að í þess stað notar það kaffi og sykur, sem verður þá hvorttveggja óhjákvæmileg nauðsynjavara.

Hv. 1. þm. Reykv. var enn á ný að undrast yfir því, að við vildum þessa lækkun, þar sem við virtumst annars láta okkur svo ant um tekjuauka. En því hefir verið lýst af hæstv. forsrh., að fram muni koma till. um það að skipa nefnd til að athuga skattamálin yfirleitt. Og jeg veit, að hv. 1. þm. Reykv. er það kunnugt, að við jafnaðarmenn leggjum mjög mikla áherslu á það, alveg eins og framsóknarmenn, að breytt verði að mörgu leyti um skattgrundvöll í landinu og tekjum ríkissjóðs verði komið fyrir á öruggan hátt og öðruvísi en hingað til hefir tíðkast.

Hv. 2. þm. G.-K. virtist vera nokkuð forviða yfir því, að meiri hlutinn ætlaði sjér að ráða, hvaða leið væri farin í skattamálum á þessu þingi. Mjer finst það leiða af sjálfu sjer, að meiri hl. ráði altaf, hvaða málum sem er, og það er eðlilegt, að þeir flokkar, sem hafa myndað meiri hl. í þessu máli, reyni að athuga það í sameiningu, hvernig hægt sje að koma fram þeim tekjuaukafrv., sem nauðsynleg eru. Hv. 1. þm. Skagf. þótti sem hjer væri um launsamninga að ræða bak við tjöldin. En það nægir að benda á, að það kemur fram opinberlega í nál., hverja skoðun flokkarnir hafa á öllum tekjuaukafrv., sem fram hafa komið í þinginu.

Þá vildi hv. 2. þm. G.-K. rengja, að rjett væri hermt um þá upphæð, sem stæði í tekjuaukafrv., að hún væri um 1300 þús. kr. Þetta geta menn sjeð með því að telja saman sjálfir. Hitt er annað mál, að jeg geri ekki ráð fyrir, eftir þeim nál., sem eru komin fram, að samþ. verði svo mikið sem þessu nemi.

Hv. þm. var mikið að tala um, að þess væri ekki þörf fyrir stjórnina að ganga að breytingum á frv., af því að Íhaldsflokkurinn væri tilbúinn að samþykkja frv. óbreytt. En hvað hafa íhaldsmenn lagt til fjármálanna á þessu þingi? Fjárlögin koma fyrir þingið með tekjuafgangi. Íhaldsmenn eru með í því að hækka gjöldin, en geta ekki fallist á nema litla tekjuauka. Nú vil jeg spyrja hv. 2. þm. G.-K., hvort Íhaldsflokkurinn muni, ef frv. kemst óbreytt í gegn, ganga á bak orða þeirra íhaldsmanna, sem eiga sæti í fjvn., um auknar verklegar framkvæmdir. Því ef einungis þessi tekjuauki verður samþyktur, en aðrir ekki, þá verður stór tekjuhalli á fjárlögum. Eða eru íhaldsmenn ef til vill að reyna það ennþá?