23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1882 í B-deild Alþingistíðinda. (915)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Bjarni Ásgeirsson:

Jeg hefi undrast dálítið þær umr., sem um þetta mál hafa orðið. Ekki af því, að skattamál sjeu ekki í eðli sínu deilumál, heldur af því, hvað menn hafa lagt aðaláhersluna á.

Það hefir komið fram hjá mönnum, að þetta atriði, sem í brtt. felst, hafi verið í frv. eins og það kom frá stjórninni. Við höfum greitt atkv. með því fyrir nokkrum dögum, og því sje það óhugsandi, að við snúumst nú móti brtt. Ed. eigi ekki að hafa meira að segja í þessu máli og það sje rangt af Nd. að láta hana beygja sig. En það kemur ósjaldan fyrir, að brtt., sem maður er mótfallinn, koma fram við frv., og greiðir þó atkv. með því í heild á eftir. Það dugir ekki að blína á það eitt, sem maður helst vill. — Það hefir og oft komið fyrir á þingi, að Nd. hefir orðið að beygja sig fyrir Ed. Það er engin regla til um það, hvor deildin eigi að ráða meira. Þegar liðið er á þing, þá er ilt að vera að þvæla málum milli deilda og verður þá að greina höfuðatriði frá auka atriðum og sætta sig við, þó frv. verði ekki afgreidd alveg eins og maður hefði helst óskað.

Það er rangt að einangra þetta mál; það verður að taka það í sambandi við þau önnur skattafrv., sem nú liggja fyrir þinginu, og líta á þau í heild.

Hv. 1. þm. Skagf. hneykslaðist mjög á því, að hæstv. forsrh. hafði sagt, að málinu væri trygt fylgi gegnum þingið. Jeg undraðist dálítið á þessu. Hvað er Íhaldsflokkurinn að gera á flokksfundum annað en ákvarða forlög þeirra mála, sem liggja fyrir þinginu? Afstaða til hinna einstöku mála er einmitt tekin á flokksfundum. Það er því ekkert óeðlilegt, þó að foringjar flokkanna megi lýsa yfir afstöðu þeirra til málanna, þegar hún er ákveðin. Og þetta er það, sem gerst hefir hjer, er báðir þeir flokkar, sem að stjórninni standa, gera kunnugt, hvað þeir ætla sjer í þessu máli. Jeg held, að þetta sje sjálfsögð skylda flokkanna og fjarri því að vera ámælisvert.

Jeg tek undir það með hv. þm. V.-Húnv., að jeg lít á stefnu frv. í heild sinni og styð þau þess vegna, þó að jeg hefði fremur kosið ýmislegt á annan veg en þar. Af því að jeg tel ekki koma til nokkurra mála að afgreiða fjárlögin með tekjuhalla, mun jeg fylgja frv., í von um, að þau ákvæði, sem nú verða samþykt, standi aðeins til bráðabirgða, en skattalöggjöfin í heild verði endurskoðuð.