23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1889 í B-deild Alþingistíðinda. (919)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Sigurður Eggerz:

Þessi ræða hv. þm. Mýr. gefur ekki tilefni til langra ummæla. Hann viðurkendi, að það er meginregla að taka tillit til þess, hvað gjaldendurnir geta greitt mikið. sömuleiðis sagði hann, að það hefði verið einkennilegt, að jeg hefði komið með þessa athugasemd. Jeg tók það fram, að mikið væri talað um halla á fjárl., en ekki um hitt, hve langt mætti ganga. Hv. þm. sagði, að jeg hefði ekki sýnt neinn sparnað. (BÁ: Ekki frekar en aðrir). Jeg bar fram till. um 10 þús. kr. fjárveitingu til Vesturlandsvegar, sem gleymdist að setja í fjárlögin. Og aðrar till. mínar munu nema um 3000 kr. Í öðru hefi jeg sýnt mikla sjálfsafneitun, t. d. í smíði nýs strandferðaskips, sem átti að kosta 600 þús. kr. Jeg greiddi atkv. á móti því, og hafði þó stj. bent mjer á, að það mundi koma mínu kjördæmi að gagni og jeg mundi standa illa að vígi, þegar þetta yrði flutt heim. Jeg greiddi þannig atkv., ekki af því að jeg væri á móti skipinu, heldur vegna þess, að jeg er á móti auknum útgjöldum. Jeg álít það ófært að hlaða meiri útgjöldum á fjárl., enda gaf jeg kjósendum mínum það loforð að gæta þess, að útgjöldin yrðu ekki of mikil, og jeg hygg, að aðrir þm. hafi gert það sama. Þó skal jeg ekki segja um jafnaðarmenn. Og þegar það er athugað, að útgjöldin eru nú 8 sinnum meiri en fyrir stríð, sjest, hvert stefnir. Þetta getur gengið í góðum árum, en ekki í vondum, og þegar þjóðin loksins vaknar, getur það verið um seinan. Það hefir mikla þýðingu, að ekki sje halli á fjárl., en þess verður að gæta að samþykkja ekki mikið af tekjuaukafrv., því að það getur leitt til þess, að framkvæmdafrek stjórn búi til meiri halla en til var ætlast. Lækkun á þessum lið hafði í för með sjer hækkun á öðrum liðum, og því hafði jeg rjett til þess að gera mína athugasemd. Jeg get bætt því við, að jeg held fast fram þeirri stefnu, að fyrst eigi að skattleggja óþarfa vörur, og jeg verð að segja það, að þótt sykur sje nauðsynlegur, eru þó margar vörur nauðsynlegri.

Jeg er í „principinu“ með því að leggja á tekjuskatt. En sú tekjuskattshækkun, sem hjer er á ferð, hittir margan hart. Hún er svar við þeim tilmælum embættismanna, að hækka dýrtíðaruppbót þeirra. Það neitar því enginn, að embættisstjettin, sjerstaklega þeir láglaunuðu, er mjög aðþrengd; þeir eiga örðugt með að lifa við þau kjör, sem þeim eru búin. En bæði jeg og aðrir sjá sjer ekki fært að verða við kröfum þeirra nú, vegna hins örðuga fjárhags ríkisins. En að svara þessum tilmælum þeirra með hækkuðum tekjuskatti, sem fyrir þá er sama sem launalækkun, það er sannarlega að gefa steina fyrir brauð. Það er ekkert rjettlæti í því, engin sanngirni.

Jeg skal ekki lengja umræðurnar meira að sinni. Undir umræðum um skattafrv., sem væntanlega verða rædd næstu daga, fæ jeg tækifæri til að skýra afstöðu mína til fjármálanna. Það þýðir kannske lítið, þar sem búið er að taka ákvörðun um þessi mál bak við tjöldin. En jeg held, að það sje best fyrir flesta að binda sig sem minst, fyr en við atkvæðagreiðsluna; lofa slíkum málum að fara gegnum elda umræðnanna, áður en þeir ákveða sig. Jeg held, að það sje ekki heppilegt, ef endanleg ákvörðun um málin er tekin annarsstaðar en í þingsölunum.