23.03.1928
Neðri deild: 55. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1891 í B-deild Alþingistíðinda. (920)

5. mál, ýmsir tollar og gjöld með 25% gengisviðauka

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg hefi vítt stjórnina og flokk hennar fyrir að kaupa það, sem fæst án þess að gefa nokkuð fyrir. Vitanlega var frv. trygður nægur atkvæðafjöldi án allra samninga. Hjer í deildinni voru brtt. jafnaðarmanna, sem nú mun eiga að samþykkja, feldar að viðhöfðu nafnakalli með 20 atkv. gegn 4, nokkrir þm., sem allir fylgdu meiri hl., voru þá fjarverandi. Hjer þurfti því ekkert að kaupa. Þá vítti jeg það og að gera málið að flokksmáli. Hv. þm. Mýr. sagði, að slíkt kæmi oft fyrir. Það hefir aldrei verið gert hjer á þingi, eftir að þingmenn hafa tekið afstöðu til málanna með atkvgr. Í þeim flokkum, er jeg hefi fylgt að málum, sparnaðarbandalaginu og Íhaldsflokknum, hefir verið varast að gera þingmál yfirleitt að flokksmálum. Það hefir ef til vill komið fyrir í 2–3 tilfellum. Flestir hafa álitið það óheppilegt, að lítill meiri hl. bindi atkvæði stórs minni hl. flokksins. Í þessu tilfelli kemur flokkssamþyktin fram á þann hátt, að fimm Framsóknarmenn í Ed., þar á meðal dómsmrh., beygja sex flokksmenn sína í Nd. til þess að ganga frá skoðun sinni. Þessir ellefu menn knýja fram flokkssamþykt gegn vilja níu manna í flokknum. Á þennan hátt ráða því þessir ellefu Framsóknarflokksmenn og fimm jafnaðarmenn — alls 16 þingmenn — úrslitum málsins. Hv. þm. sagði, að þegar ekki væri auðið að fá hið besta, yrði að taka því næstbesta. Í þessu máli var það auðvelt að fá það besta, eða það, sem hæstv. fjmrh. og mikill meiri hluti Framsóknarflokksins taldi það besta.

Um till. mínar til fjárveitinga úr ríkissjóði er það að segja, að í fjárlögunum er einungis ein till. frá mjer, sem til útgjalda horfir. Sú till. var svo sjálfsögð, ef Alþingi vildi ekki bregðast heiðri sínum, að því nær allir hv. þm. greiddu henni atkvæði. Það var skylda hæstv. stj. að taka þessa till. upp í fjárlagafrv., en vegna þess óvenjulega flaustursundirbúnings, sem á frv. stj. var, hafði þetta fallið niður, ef það þá ekki hefir verið af öðrum ástæðum, sem þá væri ennþá lakara.