25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1897 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

29. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg geri ráð fyrir, að hv. deildarmenn hafi kynt sjer svo vel breytingar þær, sem lagt er til með þessu frv. að gerðar verði á jarðræktarlögunum, að um það mál þurfi ekki að hafa mörg orð.

Þessar breytingar ganga flestar í þá átt að greiða betur en áður fyrir hverskonar jarðræktarframkvæmdum og koma skipulagi á þessa löggjöf, þannig að þeir, er slíkt hafa með höndum, geti átt nokkurn veginn víst, hvers styrks þeir mega vænta af opinberu fje til framkvæmda þeim umbótum, er þeir vilja ráðast í og til þessarar löggjafar taka.

Jeg mun fara fljótt yfir sögu og eigi hirða um að rekja efni einstakra greina frv. Það er óþarft, því að hver og einn getur sett sig inn í málið, sem hirðir um að kynna sjer það.

Jeg get lýst því yfir fyrir hönd landbn., að hún er þessu máli eindregið fylgjandi. Hinsvegar kom nefndarmönnum saman um að bera fram nokkrar brtt. við frv., og taka þær aðallega til 9. og 11. gr. þess. Breytingin, sem nefndin gerir á 5. gr., er aðeins leiðrjetting. Er prentvilla í frvgr., þar sem stendur 30 aurar í stað 80.

Um brtt. við 9. gr. er það að segja, að nefndin leit svo á, að betur færi á að meta hvert dagsverk, sem unnið er að jarðabótum á opinberri jarðeign og látið ganga upp í landskuld og leigur, og meta það þá þeim mun lægra, heldur en tiltaka, að aðeins viss hluti af dagsverkatölunni skyldi teljast tækur í slíkar greiðslur. Þetta er ekki stórvægileg breyting, og býst jeg við, að í sama stað komi niður; það verði ámóta gjald, sem leiguliði getur unnið af sjer á þennan hátt.

Þá er 11. gr. Um hana er það að segja, að nefndin gat ekki fallist á efni hennar eða það fyrirkomulag, sem þar er gert ráð fyrir að hafa á verkfærakaupasjóði, er svo nefnist. Frvgr. mælir svo fyrir, að styrkur sá, er ætlaður er fyrir unnar jarðabætur, er lögin taka til, skuli greiddur hlutaðeigendum að 4/5 einungis, en 1/5 skuli haldið eftir og fje það, er til fellur á þann hátt, lagt í sjerstakan sjóð, er varið skuli til þess að ljetta undir með bændum um kaup á hestaverkfærum. Leggi og ríkissjóður til árlega jafna upphæð og haldið er eftir af jarðabótastyrknum til aukningar sjóðnum og til þess að hafa úr meira fjármagni að spila til þessara hluta. — Nefndin hefir ekki getað fallist á þá ráðstöfun að halda eftir 1/5 af jarðabótastyrknum og greiða aðeins 4/5. Hún kýs heldur, að styrkur sá, er gengið hefir til hreppabúnaðarfjelaga, sje ákveðinn, hversu mikill hann skuli — 10 aurar fyrir hvert dagsverk — og af því fje stofnaður sjerstakur sjóður, til þess að styrkja bændur til þess að afla sjer hestaverkfæra til jarðyrkju. Til aukningar sjóðnum greiðist í hann árlega 20 þús. kr. úr ríkissjóði. Sú upphæð, er kemur í hlut hvers búnaðarfjelags, skal vera sjereign þess, og fari skifting fjárins svo fram, að miðað sje við tölu jarðabótamanna í hverjum hreppi, en ekki við dagsverkatölu. Álítur nefndin það heppilegustu og sanngjörnustu leiðina.

Það er ekkert vafamál, að í sveitum landsins er tilfinnanlegur skortur á jarðyrkjuverkfærum. En því aðeins er skjótra umbóta von á þessu sviði, að til sjeu nauðsynleg tæki, er þarf til þess að vinna jarðabætur. Eftir því sem þekking eykst á meðferð slíkra verkfæra, mundi það greiða mikið fyrir, ef hægt er að útvega bændum þau með heppilegum og ódýrum hætti. Þeim fjármunum, er til þess ganga að afla sjer þeirra, er vel varið. Jeg hefi trú á, að liðsinni það, sem þessi sjóður getur veitt bændum í þessu efni, geti orðið til þess að flýta umbótum á sviði jarðræktarinnar hjer hjá oss.

Nefndin leggur til, að hreppabúnaðarfjelögin annist sjálf pantanir, hvert fyrir sína meðlimi, en Búnaðarfjelag Íslands sjái um útvegun verkfæranna frá útlöndum, ráði gerð þeirra og gæðum. Ætti það frekar að vera til tryggingar fyrir því, að verkfæri, sem inn eru flutt, reynist góð og eigi vel við fslenska staðhætti. Hinsvegar telur nefndin ekki rjett að farið eins og gert er í þessari grein, þ. e. 11. gr. frv., að láta styrkinn vera bundinn við hestaverkfæri eingöngu. Þar sem menn vilja örar framkvæmdir og treysta sjer til og hafa fjárhagslegt bolmagn til þess að reka þær með krafti, er rjett, að þeir megi afla sjer hraðvirkari tækja. En það skilyrði er sett, að þau verkfæri sjeu þá eign fjelagsins, en ekki einstakra fjelagsmanna. Hjer er átt við þau jarðyrkjuverkfæri, sem ganga fyrir vjelaafli. Með þessu ákvæði viljum við fyrirbyggja, að einstakir menn fari að kaupa sjer dýr áhöld, sem koma að notum aðeins fá ár og vantar svo nægilegt verkefni. Það ætti að vera hemill á, að hlaupið sje til að afla sjer tækja, sem hæpið er, að komi að fullum notum. Einkum af því að þekking á slíkum vjelum er enn sem komið er mjög af skornum skamti hjer á landi.

Þá held jeg, að jeg hafi gert grein fyrir þeim breytingum, er nefndin leggur til. Ef hv. deildarmenn óska, er jeg fús til að gefa frekari skýringar, ef jeg get þær tje látið. En að svo vöxnu máli sje jeg ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar. Jeg vil aðeins enn geta þess, að í brtt. við 11. gr. hefir fallið niður eitt orð úr handritinu — að jeg ætla. Þar stendur „ef 10 fjelagsmenn óska“, en á að vera: ef minst 10 o. s. frv. Jeg vona, að þetta megi skoða sem leiðrjettingu og þurfi ekki sjerstaka brtt. til þess að kippa því í lag. Það var ekki meining nefndarinnar að einskorða tölu þeirra, er æsktu eftir jarðræktarvjelum, við 10 og ekki mættu þeir fleiri vera, heldur hitt, að það væri almennur vilji innan fjelagsins og alls ekki færri manna en 10.

Það má vera, að hreppabúnaðarfjelögin hafi notað jarðabótastyrk sinn til þess að kaupa verkfæri. En við teljum, að með þessu móti komi styrkurinn að meiri notum heldur en með því að úthluta styrknum til hvers fjelags og láta það svo sjálfrátt um það, á hvern hátt það notfærir sjer hann.