25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1901 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

29. mál, jarðræktarlög

Halldór Stefánsson:

Jarðræktarlögin hafa þótt óskýr um ýms atriði. Um þau atriði hafa þá að sjálfsögðu myndast ýmsar venjur, sem farið hefir verið eftir. Jeg geri ráð fyrir, að þetta frv. leysi vafaatriðin svo, að þau sjeu nú skýrari en áður. Þó er spurning um einstök atriði, hvernig þau eru hugsuð.

Það er þá fyrst, hvort hugsað er til þess við ábúendaskifti á opinberum jarðeignum að hækka afgjaldið í hlutfalli við það, sem greitt hefir verið fyrir þær jarðabætur, er unnar hafa verið á þessum eignum. Ef svo væri hugsað og mikið væri unnið, þá yrði það til þess, að afgjaldið stórhækkaði við hver ábúendaskifti, af því að borgun fyrir þær jarðabætur er miklu meiri en sem nemur almenna styrknum. Sýnist mjer ekki ugglaust um, að afgjaldið yrði æðihátt, og hærra en eðlilegt er með tilliti til þess, hvað eignin getur rentað og hvað mætti leggja á hana hátt afgjald. En ef þetta er ekki hugsunin, þá spyr jeg, — hvað kemur til þess að borga á hærra fyrir jarðabætur á þessum opinberu eignum heldur en almenna styrknum nemur, eða nær þrefalt móts við hann?

Jeg vil leyfa mjer að skjóta því til hv. landbn. og biðja hana að gefa mjer skýringar um þetta atriði. Ef hún er ekki viðbúin í þetta sinn — sem vel má vera —, þá vænti jeg þess, að hún geri það við 3. umr.