25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1904 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

29. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Þeir tveir hv. þm., sem talað hafa, komu fram með nokkrar aths. og fyrirspurnir til nefndarinnar. Jeg get nú að svo stöddu ekki gefið ákveðin svör af hálfu nefndarinnar um þessi atriði, með því að þau hafa ekki komið til umr. í nefndinni.

Hv. 1. þm. N.-M. beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvað nefndin hefði hugsað sjer um það, þegar ábúendaskifti verða á jörðum. Hvort afgjaldið skyldi þá hækka í hlutfalli við það, sem greitt hefir verið fyrir unnar jarðabætur. Jeg skal ekki segja neitt ákveðið um þetta af hálfu nefndarinnar, en jeg hygg, að þeir, sem síðar taka við jörðunum, muni ekki greiða hærra afgjald en sem því svarar, sem ætla má, að umbæturnar auki arðinn af jörðinni.

Vitaskuld mætti með því gera ábúðina svo dýra, að ekki væri hægt að rísa undir því. Það hefir hingað til verið svo, að þar, sem heimilt hefir verið að vinna af sjer landskuld og leigur, hefir afgjaldið ekki hækkað. Til dæmis veit jeg það, að skólastjórinn á Hvanneyri hefir unnið alt af sjer með umbótum á jörðinni, og meira en það, en það er víst, að hið árlega afgjald hefir ekki hækkað. Það mundi ætíð verða litið á það, hvað væri hæfilegt jarðarafgjald yfirleitt.

Þá drap hv. 1. þm. N.-M. á það, að með því móti væri greiddur hærri styrkur til opinberra eigna, en jeg veit ekki, hvort á að kalla það styrk, þegar menn vinna þetta af sjer, þar sem dagsverkið er ekki metið á meira en 3 kr. og 50 aura, því að vitanlega fær enginn dagsverk unnið fyrir það verð.

Þá fór hv. 2. þm. Skagf. nokkrum orðum um þetta mál og brtt. nefndarinnar, einkum við 5. og 11. gr.

Að því er fyrra atriðið snertir, þá get jeg vel fallist á, að það sje hagkvæmara að hafa flokkana aðeins þrjá. Um þetta var ekki rætt í nefndinni, en jeg get vel búist við, að hún taki þetta til athugunar. Þá kem jeg að aðalatriðinu í ræðu hans, þeirri till. landbn., sem lýtur að styrknum til hreppabúnaðarfjelaganna.

Þetta getur verið álitamál, en nefndin, sem einmitt reyndi að athuga þetta eftir fremsta megni, komst að þeirri niðurstöðu, að þetta væri besta tilhögun, sem hún hefir lagt til, að tekin væri upp. En það má hinsvegar vera, að till. nefndarinnar hafi skapast af því, að enginn nefndarmanna viti til þess þar, sem þeir þekkja til, að nokkursstaðar sje svo ástatt, að til sjeu næg tæki til jarðvinslu og heyöflunar, svo að ekki sje þörf á að bæta við frá því, sem nú er. Jeg get sagt það fyrir mitt leyti, að hvergi þar, sem jeg þekki til, er neitt nálægt því, að svo sje, og jeg hygg, að það sje svo um hv. meðnefndarmenn mína líka. Það er auðvitað mjög gleðilegt, ef það er svo, að einhverjir hreppar sjeu svo vel settir, að ekki skorti á í þessu efni, því að alstaðar þar, sem jeg þekki til, er stórkostlegur skortur á nauðsynlegustu verkfærum. Það, að nefndin gerði till. sínar svo undantekningarlaust, er einmitt vegna þess, að hún áleit, að ástandið væri yfirleitt þannig. Till. okkar eru beint á þeim grundvelli bygðar. En nú hefir hv. 2. þm. Skagf. upplýst, að ástandið sje ekki alstaðar eins, og jeg get lofað honum því, að það verður athugað í nefndinni, ef svo er, að til sjeu sveitarfjelög, sem ekki skorti nauðsynleg verkfæri, að þau geti þá notið styrksins til annars, því að eins og hv. þm. (JS) tók fram, er ekki ástæða til þess fyrir þau hjeruð að leggja fjeð í sjóð, sem eingöngu veiti fje til verkfærakaupa.

Það er alls ekki tilgangur landbn. að setja fjelögunum neina yfirfjárráðamenn. En hún gerði ráð fyrir, að víðast mundi vera svo ástatt sem áður er sagt og taldi nauðsynim svo brýna, að mesta áherslu bæri að leggja á þetta; en það var fjarri öllum nefndarmönnum að vilja spilla málinu á nokkurn hátt. Hv. þm. (JS) getur fullvissað sig enn betur um þetta, ef hann athugar það, að nefndin hefir ekki viljað skerða neitt þann styrk, sem veittur er til jarðabóta í sambandi við þetta. Jeg fyrir mitt leyti tel rjett, að fjelögunum sje heimilað að nota fjeð til annars, ef svo vel er í garðinn búið, að ekki þyki ástæða til að verja því til verkfærakaupa.

Hv. þm. (JS) drap á það í sambandi við tekjur hreppabúnaðarfjelaganna, að fjelagagjöldin væru lág, um 1–2 kr.; en jeg ætla þó, að víða sjeu tillögin hærri, og þau eru 5–6 kr. og jafnvel enn hærri þar, sem jeg þekki til.

Jeg held, að jeg þurfi ekki að víkja frekar að þeim ummælum, sem fram hafa komið, en sem sagt, landbn. mun taka til athugunar bendingar þessara tveggja hv. þm., eftir því sem við verður komið.