25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1916 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

29. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Það eru aðeins fá orð, sem jeg þarf að segja. Það voru nokkur ummæli í ræðu hæstv. forsrh., sem jeg skal lauslega víkja að. Hæstv. ráðherra sýndist ekki vel frá því gengið eftir tillögu nefndarinnar, hvort þessi áhöld, sem Búnaðarfjelagið gengst fyrir að menn kaupi, ættu að vera eign fjelaganna sjálfra eða einstakra manna, og jafnframt drap hæstv. ráðh. á, að það mætti skilja svo eftir fyrri hl. hennar, að það væri um marga sjóði að ræða, en eftir síðari hluta hennar aðeins um einn sjóð. Jeg held, að eftir tillögum nefndarinnar sje talað nokkuð greinilega um þetta. Þar er talað um sjóðsstofnun, sem þetta tillag eigi að ganga til, og jafnframt talað um fast tillag úr ríkissjóði til þessa sjóðs. Með þessu er í raun og veru sagt, að það skuli vera sjóður, en um skiftinguna milli hinna einstöku hreppabúnaðarfjelaga eru gefnar ákveðnar bendingar um, hvað skuli lagt þar til grundvallar hlutdeild, sem slíkt fjelag á tilkall til; er sagt, að það skuli fara eftir tölu jarðabótamanna í hverju fjelagi. Jeg held því, að þetta sje nógu ljóst og geti tekið af öll tvímæli um það, hvernig beri að skilja þetta. Það ætti að vera auðskilið, að það er einn sjóður, sem mörg hreppabúnaðarfjelög eiga tilkall til síns vissa hluta úr, eftir tölu þeirra jarðabótamanna, sem eru í hverju fjelagi, og geta þau fengið þann styrk, sem þessi hlutföll heimila þeim. Að því leyti er þessi sjóður sjereign hvers fjelags eftir reglum, sem settar eru, og hvorki meira nje minna. Noti eitthvert hreppabúnaðarfjelag ekki þessa sjereign sína eitthvert ár, þá kemur það því aftur til. góða síðar, þegar það vill nota sjer það, gegn því skilyrði, að það þarf að leggja fram að sjálfsögðu helming til þessara verkfærakaupa.

Þá drap hæstv. forsrh. á, að það liti svo út, sem fjelögin sjálf gætu eignast þessi áhöld. Það er þeim að vísu heimilt eftir greininni, og fer það auðvitað eftir því, hvað þau telja sjer hentugast í því efni. En lesi hæstv. forsrh. greinina, þá hlýtur hann að sjá, að til er ætlast, að bændur fái þessi verkfæri. Annars skal jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr greininni það, sem á við þetta atriði. Þar segir svo:

„Tilgangur sjóðsins er að ljetta undir með bændum, einstökum eða fleirum í fjelagi, að eignast hestaverkfæri til jarðræktar eða heyvinnu“. Svo segir síðar:

„Fje sjóðsins skal fyrst og fremst varið til að kaupa hestaverkfæri handa bændum. Þó er búnaðarfjelagi heimilt, ef 10 fjelagsmenn óska, að kaupa jarðræktarvjelar, enda sjeu þær þá eign fjelagsins“.

Jeg held, að þetta sýni ljóslega, að það er tilgangurinn fyrst og fremst að afla bændum sjálfum verkfæra. En fjelaginu er þó heimilað að eiga einhver verkfæri, og geri jeg ráð fyrir, að í því efni komi helst til greina sú undantekning, sem síðast var nefnd í því, sem jeg las hjer upp. Það verða helst þessi stóru verkfæri, sem hver einstaklingur hefir ekki mikið við að gera, en gætu orðið að góðum notum fyrir marga í fjelagi. — Jeg held, að jeg hafi ekki þurft að víkja að fleiru í ræðu hæstv. forsrh.

Þá var það hv. þm. Ísaf., sem beindi til mín fyrirspurn sem starfandi manns í milliþinganefndinni í landbúnaðarmálum. Sem milliþinganefndarmaður get jeg nú að vísu ekki svarað þessu, en jeg get svarað því sem þingmaður. Hv. þm. hefir vafalaust tekið eftir því í greinargerð frv., að milliþinganefndin gerir ráð fyrir að fara höndum um málið síðar meir, og að þær breytingar, sem í þessu frv. felast, ber engan veginn að skoða sem endanlega afgreiðslu þessa máls. Geri jeg ráð fyrir, að á sínum tíma komi nefndin með till. um fleiri breytingar. En enn er ekki tími kominn til að segja, hverjar þær verða. Undirbúningi þeirra er hvergi nærri lokið. En út af því atriði, hvort styrkja beri kauptúnin eins og einstaklinga til jarðræktarframkvæmda, get jeg skýrt frá því, að þetta bar á góma í milliþinganefndinni. Kom nefndarmönnum saman um að gera að þessu sinni engar brtt. við það atriði, en láta haldast þann skilning á þessu atriði laganna, sem venjan hefir helgað. Sem þingmaður get jeg bætt því við, að jeg legg á engan hátt til jafns fjölmenn kauptún og einstaklinga um aðstöðu til jarðræktarframkvæmda. Aðstaða kauptúnanna er víðast hvar mun betri. Þar fyrir fullyrði jeg vitanlega ekki, að sum kauptún hafi ekki lakari aðstöðu um þetta efni en alment gerist. En mörg eða flest þeirra eiga kost á mun betri og ódýrari tækjum og meiri og ódýrari vinnukrafti en bændur. Ættu þau því ekki að þurfa eins háan styrk og þeir einstaklingar, er lakari aðstöðu hafa. — Jeg get tekið það fram að nýju, að jeg segi þetta aðeins sem mína persónulegu skoðun, og get jeg ekki fullyrt, hver endanleg niðurstaða nefndarinnar kann að verða.