25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (936)

29. mál, jarðræktarlög

Bernharð Stefánsson:

Þær umræður, sem hjer hafa orðið, hafa allar snúist um 11. gr. frv., eða verkfærakaupasjóðinn. Hefi jeg ekki heyrt annað en að allir ræðumenn væru á einu máli um það, að hann bæri að stofna. Enda er það vitanlegt, að eitt helsta skilyrðið fyrir aukinni jarðrækt er, að kostur sje á góðum og fljótvirkum verkfærum.

Mjer skilst, að ágreiningur sje aðallega um tvö atriði: 1. á hvern hátt á að mynda sjóðinn, og 2. hvernig haga eigi styrkveitingunum; hvort styrkurinn eigi að ganga beint til einstaklinganna eða til fjelaga úti um land.

Hæstv. forsrh. sagði, að stefna ætti að því, að jarðræktin yrði heimilisvinna og jarðyrkjuverkfæri kæmust inn á hvert einasta heimili. Jeg er alveg á sama máli, en okkur greinir á um leiðirnar. Hann virðist álíta, að besta ráðið sje að fara þá leið, er frv. gerir ráð fyrir. En jeg tel það vafasamt. Jeg held einmitt, að þetta fje komi að meiri og víðtækari notum með því að skifta því á milli búnaðarfjelaganna úti um land, í hlutfalli við tölu fjelagsmanna, heldur en að hafa sjóðinn óskiftan. Ef hann er óskiftur og einstökum mönnum veittur styrkur, er hætt við, að á því verði nokkurt handahóf og að hann lendi fyrst og fremst til þeirra, sem næstir eru og best geta borið sig eftir björginni, en alls ekki víst, að þar sje þörfin mest. En ef hvert búnaðarfjelag hefir rjett til ákveðinnar fjárhæðar, þá munu þau öll ganga eftir sínum hluta og sjá fyrir, að lagt verði fje á móti, og þannig munu verkfærin dreifast út um landið. Jeg held því, að till. nefndarinnar tryggi örari útbreiðslu jarðyrkjuverkfæra og sjeu til meiri hjálpar fyrir hina efnaminni bændur heldur en frv. óbreytt, og þó einkum, að þær tryggi betur rjett hinna fjarlægari landshluta.

Jeg skal geta þess, að jeg hafði ætlað mjer að minnast á spurningu hv. 1. þm. N.-M. um eftirgjald jarðeigna hins opinbera, sem umbætur eru gerðar á. Var jeg ekki sammála hv. frsm. um hans svör við þessu. En þess gerist nú ekki þörf, að jeg fari út í þetta, þar sem hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) hefir skýrt frá, hvernig þetta er haft. Það fer eftir alt öðrum lögum en jarðræktarlögunum, þ. e. eftir byggingarskilmálum jarðanna. Jeg álít, að það nái ekki nokkurri átt, að eftirgjaldið eigi altaf að vera eins, hve mikið sem jarðirnar eru bættar, þar sem ríkið leggur fram svo mikið fje til jarðræktarinnar. Afgjaldið af prestssetrunum hygg jeg, að metið sje á ákveðnu árabili í sambandi við fasteignamatið.

Jeg hafði og hugsað mjer að gera að nokkru umtalsefni ræðu hv. 2. þm. Skagf., en hv. þm. V.-Sk. (LH) hefir tekið fram mest af því, sem jeg mundi hafa sagt. Ef samþ. verður brtt. landbn. við 11. gr., get jeg ekki sjeð, að þar með sje tekinn styrkurinn af hreppabúnaðarfjelögunum, heldur mætti í raun rjettri segja, að honum væri breytt og hann aukinn þannig, að fastákveðið væri, hvað þau skyldu gera við hann. Þar, sem jeg þekki best til, er það svo nú þegar, að fjelögin verja styrknum til verkfærakaupa. Auk þess er þessi styrkur orðinn svo lítill, að jeg skil ekki annað en fjelögin standi jafnrjett eftir, þótt hann sje af þeim tekinn í þeirri mynd, sem hann nú er. Jarðræktarlögin –og þá einkum ef þetta frv. verður samþykt með brtt. nefndarinnar — tryggja það, að hver einasta sveit mun halda uppi búnaðarfjelagi, þar sem svo er ákveðið í till. nefndarinnar, að skilyrði fyrir jarðræktarstyrk sje m. a., að styrkþegi sje í búnaðarfjelagi. Og þegar menn fá ríflegan styrk fyrir jarðabætur eftir jarðræktarlögunum, þá ætti þeim ekki að vera vorkunn að gjalda fjelagi sínu töluvert ársgjald. Alt öðru máli var að gegna áður, þegar eini jarðabótastyrkurinn var frá búnaðarfjelögunum. Sú styrkveiting var áður líftaug fjelaganna, en nú er hún orðin hálfgerður hjegómi með því fyrirkomulagi, sem nú er og þegar styrkurinn er orðinn jafnlítill og nú.