25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1921 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

29. mál, jarðræktarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg er ánægður með yfirlýsingu hv. frsm., að höfuðáhersluna beri að leggja á að afla einstaklingunum verkfæra. Þó vill hv. nefnd ekki fella burtu heimildina til að kaupa vjelar, sem sjeu eign fjelaganna í heild. Til rökstuðnings minni skoðun um þetta vil jeg geta þess, að til er svo nefndur „vjelasjóður“, og hefi jeg hugsað mjer, að hann hjálpi fjelögunum með lánveitingum til að eignast stærri jarðyrkjuverkfæri. Þó að sjóðurinn sje ekki stór, ætti hann að geta veitt töluverða hjálp með lánveitingum til stutts tíma.

Þá vil jeg biðja hv. landbn. að athuga jafnframt þessu atriði til 3. umræðu, hvort ekki kynni að vera rjett að þrengja verksvið sjóðsins með því að taka burtu heimildina til kaupa á heyvinnuvjelum. Alt það, sem þá verður eftir, sýnist ærið nóg verkefni.

Þá er 3. atriðið, sem jeg býst við, að mjög erfitt verði við að fást í framkvæmdinni. Fjelögin eiga að ákveða sjálf, hverra verkfæra þau æskja frá Búnaðarfjelagi Íslands, og ráða, hvernig þau skifta þeim milli fjelagsmanna. Bið jeg hv. nefnd að athuga, hvernig á að haga þessari skiftingu. Gerum t. d. ráð fyrir, að eitthvert fjelag hefði yfir svo miklu fje að ráða, að það gæti látið 3 fjelagsmenn fá sitt myndarlega jarðyrkjuverkfærið hvern. En gerum jafnframt ráð fyrir, að 6 fjelagsmenn byðust til að leggja fram fje á móti. Jeg fyrir mitt leyti býð þá ekki í friðinn í fjelagsskapnum. Er ekki athugandi, hvort ekki mundi betra að fela þetta vald annnaðhvort Búnaðarfjelagi Íslands eða búnaðarsamböndunum?

Vildi jeg gjarnan mega eiga tal um þessi atriði við hv. nefnd fyrir 3. umr.