25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1922 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

29. mál, jarðræktarlög

Jón Sigurðsson:

Jeg verð fyrst að leiðrjetta ofurlítið það, sem hv. 1. þm. Árn. hafði eftir, þegar jeg var að tala um þörf á verkfærum í sumum sveitum. Hann hefir skilið orð mín svo, að þar væri komið svo mikið af verkfærum, að ekki væri á það bætandi. Þannig er það vitanlega hvergi. Það er altaf hægt að segja, að bæta megi við. En það, sem jeg vildi segja, var það, hvað skyldi segja um þær sveitir, þar sem svo er ástatt, að þær hafa fullnægt nokkurn veginn þeirri þörf, sem er beinlínis aðkallandi. Jeg býst ekki við, að það sje frekar á færi manna hjer suður í Reykjavík, í atvinnumálaráðuneytinu eða í Búnaðarfjelaginu, heldur en bændanna sjálfra heima í sveitunum að meta þessa þörf.

Það er ekki svo að skilja, að hjer sje ekki verkefni fyrir hendi á þessu sviði, heldur hitt, að annað kalli meira að.

Annars býst jeg við, að þýðingarlítið sje að ræða þetta öllu frekar. Því miður hefi jeg orðið var við, að stjettarbræður mínir, þeir, sem talað hafa, vilja hallast að því að svifta búnaðarfjelögin þessum styrk. Það má þess vegna segja, að það sje að berja höfðinu við steininn að halda uppi þessum umr. En jeg vil þó minnast á nokkur atriði og jafnframt benda á leið, sem mjer þykir líklegust.

Jeg skal taka það strax fram, að jeg var dálítið vonsvikinn, þegar hæstv. atvmrh. stóð upp, því að jeg bjóst við, að hann mundi halda betur á sínu máli. Jeg hafði gert mjer von um, að hann mundi alla daga halda uppi vörn fyrir sitt eigið frv., eða 11. gr. þess, sem nefndin hefir gerbreytt, því að í mínum augum er hún miklu aðgengilegri samkv. till. stj. En sú von brást algerlega. Jeg felli mig miklu betur við það, að tekinn sje ofurlítill hluti af jarðræktarstyrknum og notaður til sameiginlegra þarfa. Jeg skal játa það, að till. stj. að taka 1/5 hluta alls styrksins frá þeim, sem jarðabætur hafa unnið, gengur alt of langt; hún hefði mátt ganga miklum mun skemra og hefði þó komið að góðum notum. En hugmyndin er jafngóð fyrir því. Jeg hefi árlega tekið á móti talsverðu af slíku fje, og jeg get sagt, að jeg lít svo á, að bæði mjer og öðrum ætti ekki að vera nema ánægja að leggja ofurlítið af mörkum af þessu fje til þeirra, sem búa og ekki eru ennþá komnir neitt á stað. Það er þetta, sem jeg vil halda á lofti í till. stj., en sem mjer fanst hæstv. atvmrh. hlaupa að miklu leyti frá. Ef maður ber þetta saman við till. nefndarinnar, þá eru þær á þá lund, að það á að taka styrkinn frá búnaðarfjelögunum á þann hátt, að hann renni í sjóði, sem úr væri veitt hjer syðra undir umsjón atvinnumálaráðuneytisins. Ofan á þetta bætist 20 þús. kr. tillag úr ríkissjóði; og þetta tillag á ekki einu sinni að koma þeim sjerstaklega til hjálpar, sem verst eru settir, heldur að jafnast niður á alla eftir höfðatölu fjelagsmanna. Jeg tek sem dæmi viðvíkjandi þessu aukatillagi, að hjer í Reykjavík væri jarðræktarfjelag með 30 meðlimum, þá fengi það jafnhátt tillag og búnaðarfjelag norður á ströndum, sem hefir sömu meðlimatölu. Það geta allir sjeð aðstöðumuninn. Hjer við Reykjavík geta allir notað sömu verkfærin, auk allra annara þæginda. Norður á ströndum er svo löng leið milli bæja, að illmögulegt er að flytja verkfæri á milli. Það er meðal annars þessi eðlismunur á till. nefndarinnar og till. í stjfrv., sem gerir það, að jeg get ekki aðhylst breytingar landbúnaðarnefndar.

Svo að jeg snúi mjer aftur að styrknum til búnaðarfjelaganna, þá hefir því verið haldið fram, að hann væri svo lítill, að engan munaði. Bæði háttv. þm. V.-Sk. og háttv. 2. þm. Eyf hafa mjög slegið á þá strengi, að það munaði engan um 5 aura á dagsverk. Það er rjett, að þetta er mikils til of lítið. En það er í raun og veru minna fyrir það, að ekki hefir verið komið skipulagi á þetta, að borgað hefir verið eingöngu eftir dagsverkatölu, í stað þess, að setja hefði átt hámark um, hvað einstök búnaðarfjelög ættu að fá mikið. Með þeirri aðferð, sem verið hefir, er það sýnt, að þeir staðir, þar sem stórkostlegar búnaðarframkvæmdir eiga sjer stað, eins og t. d. í. umhverfi kaupstaða, þeir gleypa meginið af þessum búnaðarfjelagastyrk. Aðeins lítið brot fer í sveitir landsins. En það var ekki meiningin upphaflega, heldur hitt, að þetta yrði sem jafnast og til uppörvunar fyrir búnaðarfjelagsskapinn.

Svo er annað atriði, sem jeg drap á lítillega áðan og jeg felli mig afleitlega við. Það er, að atvinnumálaráðuneytið á að vera nokkurskonar yfirfjárráðamaður bændanna, eða þessa fjelagsskapar þeirra. Yfir höfuð sýnist mjer, að með því að færa þennan litla styrk úr höndum fjelaganna til umráða Búnaðarfjelags Íslands og atvinnumálaráðuneytisins, þá sje verið að halda fram þeirri stefnu, sem við verðum ákaflega oft varir við, nefnilega að reyna að „centralisera“ alt hjer í Reykjavík. Það má vel vera, að það hafi einhverja kosti; en í mínum augum fylgja því líka margir og miklir ókostir.

Jeg hefi nú látið uppi skoðun mína á því, hverja leiðina jeg kjósi heldur Jeg er nefnilega sannfærður um það, að það fylgir svo mikil blessun starfsemi búnaðarfjelaganna, að jeg mun hiklaust greiða atkv. með því að leggja nokkurt aukagjald á mig og mína stjettarbræður, í stað þess að svifta þau styrknum.

Jeg hefi einnig þá trú á bændum þessa lands, að það sje óhætt að trúa þeim fyrir fje og þurfi ekki að skipa þeim neina yfirfjárráðamenn á þessu sviði.

Eins og jeg tók fram í fyrri ræðu minni, þá er það reynsla þar, sem góður búnaðarfjelagsskapur hefir starfað um lengri tíma, að af honum hafa leitt margvíslegar umbætur á ýmsum sviðum, þar sem fje hefir verið varið til verkfærakaupa og ýmislegs annars, t. d. verðlauna, eins og jeg gat um áðan, verðlauna fyrir góða hirðingu á skepnum, til verðlauna á smábúfjársýningum og þess háttar. Það þarf ekki mikið fje til þessa, en það er áreiðanlegt, að slík uppörvun gerir sitt gagn til umbóta á ýmsum sviðum. Og jeg held einmitt, að ef fjelögin hafa dálítið handa milli, verði það drjúgt til þess að skapa áhuga. Jeg hefi nefnilega ekki þá trú, sem sumir virðast hafa, að við bændur eigum að hlíta nokkurskonar æðri forsjón, þar sem er Búnaðarfjelag Íslands og stj. Það virðist allvíða brenna við, að mönnum finnist, að þaðan að ofan eigi að koma allar till., sem til umbóta horfi. Mín reynsla er sú, að till., sem hafa orðið til mestra umbóta fyrir bændur, hafi komið frá bændunum sjálfum, sprotnar upp af þeirra eigin þörf. Er áreiðanlegt, að aukinn styrkur til búnaðarfjelaga mundi að miklum mun lyfta undir viðleitni manna, svo að þeir framkvæmdu ýmislegt það, sem vakir fyrir þeim, en þeir vegna fjárskorts treysta sjer nú ekki til að framkvæma.

Það hefir verið bent á, að jarðræktarlögin yrðu til þess að halda fjelagsskapnum saman. Það er rjett, að enginn fær jarðræktarstyrk, nema hann sje í búnaðarfjelagi; en jeg verð að segja, að jeg gef ekki mikið fyrir þann búnaðarfjelagsskap, sem einungis úthlutar jarðræktarstyrk; hann á ekki skilið að heita búnaðarfjelag.

Hvað viðvíkur árgjaldi í búnaðarfjelögunum, þá hygg jeg það sje rjettara hjer sem annarsstaðar að kjósa það, sem eiga má nokkurn veginn víst, heldur en eiga undir högg að sækja um það, hvað fjelagsmenn vilja láta af hendi rakna. Stundum vilja menn að vísu leggja á sig allmiklar byrðar, en það getur líka brugðist.

Jeg ætla svo ekki að hafa þetta mál mitt lengra; vonast jeg eftir, að þrátt fyrir daufar undirtektir vilji landbn. þó taka þetta mál aftur til rækilegrar yfirvegunar, — og ennfremur, að það reynist ekki svo langt í milli okkar sem virst hefir af þeim ummælum, sem hafa komið fram hingað til.