25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1929 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

29. mál, jarðræktarlög

Magnús Guðmundsson:

Það var aðallega út af orðum, sem fjellu í ræðu hv. 1. þm. N.-M., að jeg kvaddi mjer hljóðs. Hann segist ekki koma auga á, að það sje ástæða til að láta þá leiguliða, sem búa á eignum hins opinbera, fá eins mikinn styrk til jarðabóta á ábýlisjörðum sínum og gert er ráð fyrir í frv., samanborið við aðra leiguliða. Út af þessum ummælum vil jeg benda hv. þm. (HStef) á, að ekki er hægt að skylda einstaka eigendur til þess að leggja fram fje til umbóta, á jörðum sínum. Slíkt færi í bága við 63. gr. stjórnarskrárinnar. En þetta getur ríkissjóður gert að því er snertir hans jarðir. Og jeg sje ekkert því til fyrirstöðu, þó að hann gangi á undan í því að vera góður landsdrottinn og öðrum til fyrirmyndar. Það leiðir vitanlega af sjálfu sjer, að jarðirnar hljóta að hækka í verði, ef á þeim er unnið mikið að jarðabótum, og þó að afgjald þeirra sje ekki hækkað strax á fyrstu árunum, þá verður það vitanlega gert í framtíðinni. Og að því er prestana snertir, þá vil jeg geta þess, að afgjald prestssetursjarðanna er metið upp í laun þeirra, og altaf metið upp 10. hvert ár. Hlýtur afgjaldið því að hækka, ef mikið er unnið að jarðabótum, og fær ríkissjóður því endurgoldið að minsta kosti að nokkru leyti það, sem hann hefir lagt í jörðina. Hitt er aftur rjett, að um það er ekki hægt að segja, hvort hægt verði að selja jarðirnar hlutfallslega hærra verði, miðað við það, sem í þær hefir verið lagt. En eins og jeg tók fram áðan, finst mjer ekki nema eðlilegt, að hið opinbera gangi á undan með góðu eftirdæmi og verði sá landsdrottinn, sem vill gera sínar jarðir góðar, þó að um það megi altaf deila, hvort það sje hin rjetta leið, sem farin er í frv.

Út af ummælum hv. þm. Ísaf. vil jeg benda honum á, að það er ekki alveg sama, hvar jarðabæturnar eru unnar, hvort þær eru unnar á þeim stöðum, þar sem menn geta strax komið afurðum sínum á góðan markað, eða unnar fram til dala, þar sem um engan markað er að ræða nema heimilismarkaðinn. Það getur því á engan hátt verið rjett að borga sama styrk fyrir þær jarðabætur, sem unnar eru kringum kaupstaðina, eins og fyrir jarðabætur, sem unnar eru fram til dala, þar sem samgöngur eru erfiðar og aðrir staðhættir eftir því.

Auk þess er víst, að víða kringum kaupstaði eru jarðabæturnar beinlínis arðvænlegar, og því beinlínis rangt að veita styrk til þeirra.