25.02.1928
Neðri deild: 32. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1931 í B-deild Alþingistíðinda. (943)

29. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg verð hjer fljótt yfir sögu að fara, þar sem jeg hefi aðeins rjett til þess að gera stutta aths., enda þótt ýmislegt kæmi fram í ræðu háttv. 2. þm. Skagf., sem þurft hefði að athuga. Það voru nokkur ummæli, sem hann hafði síðast, er jeg hefði óskað, að fram hefðu komið í fyrri ræðu hans, því að nú finn jeg, að meira ber milli hans og nefndarinnar en ætla mátti eftir fyrri ræðunni, því að nú virðist hann alls ekki fella sig við það, sem hann virtist vera ánægður með áður. En það, sem mjer fanst undarlegast hjá þessum hv. þm., var það, að hann taldi, að nefndin með till. sínum væri að rýra frv. stj. Þessu mótmæli jeg sem algerðri staðleysu hjá hv. þm., staðleysu, sem hann getur alls ekki staðið við. Það getur verið, að samkv. till. nefndarinnar verði styrkurinn eitthvað minni fyrstu árin til verkfærakaupasjóðs, en til jarðræktar og áhalda verður hann meiri samkvæmt till. nefndarinnar. En hve lengi það verður, að verkfærakaupasjóður fái með þessu móti minna en eftir till. stj., ber framtíðin í skauti sínu, því að verði þetta samþ. nú, verður því ekki breytt nema með lagasetningu. En samkv. stjfrv. átti þetta að vera aðeins til 5 ára. Og jeg vil benda hv. þm. á, að eftir tillögum nefndarinnar verður styrkurinn til hreppabúnaðarfjelaganna í þessu skyni, eins og nú standa sakir, 40–50 þús. kr. Við þetta bætast svo 20 þús. kr., sem greiða á úr ríkissjóði til verkfæra kaupasjóðsins. Verður því upphæðin fyrsta árið samkvæmt þessu a. m. k. 60 þús. kr. En eftir frv. stj. er hún 70 þús. kr. Mismunurinn er því ekki mikill, þó að ekki sje gengið út frá meiri jarðabótum en nú eru unnar; en eins og till. bera með sjer, fer upphæð sú, sem búnaðarfjelögin fá í þessu skyni, alveg eftir tölu þeirra dagsverka, sem unnin eru. Styrkur þessi verður því þeim mun meiri, sem meira er unnið að jarðabótum. Auk þess halda hlutaðeigendur öllum styrknum, sem veittur er samkv. II. kafla jarðræktarlaganna. Hjer er því síst verið að skerða till. hæstv. stj. Kann jeg því illa við, að hv. 2. þm. Skagf. skuli vera að saka okkur um, að við höfum dregið úr styrknum til búnaðarfjelaganna, þar sem við höfum nærri því tvöfaldað hann frá því, sem áður var. Það má vitanlega deila um, hvort þessi tilhögun sje rjett eða ekki, en að hjer sje verið að rýra styrkinn, er fjarstæða ein. Þar sem jeg hefi aðeins rjett til þess að gera stutta aths., verð jeg að stikla á þessu í stórum dráttum. Eins og nú er, fer skifting jarðabótastyrksins milli búnaðarfjelaganna eftir dagsverkatölu í hverju fjelagi, en nefndin leggur til, að þessi styrkur skiftist hlutfallslega á milli búnaðarfjelaganna eftir tölu jarðabótamanna í hverju fjelagi. Jeg skal ekki neita því, að á þennan hátt fá sum fjelög í kaupstöðum minna en ef skift er eftir dagsverkatölu eins og nú er. En jeg fæ ekki sjeð, að það sje neitt ósanngjarnt.

Skal jeg svo ekki fjölyrða frekar að sinni.