05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1935 í B-deild Alþingistíðinda. (952)

29. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Landbn. hefir ekki átt kost á að kynna sjer brtt. á þskj. 384 eða að bera sig saman um hana, síðan hún kom fram. Jeg held nú reyndar, að hún sje að efni til eins og hún hefir verið skýrð af hv. flm., og í samræmi við það, sem þeir hafa haldið fram í málinu, og er þá skemst af að segja, að nefndin getur ekki aðhylst hana, og skal jeg víkja nánar að því síðar.

Þá liggja hjer fyrir fleiri brtt., og skal jeg fyrst minnast á till. hv. þm. Ísaf, og hv. þm. V.-Sk. á þskj. 310. Um hana hefir nefndin óbundin atkv. og munu nokkrir nefndarmenn greiða henni atkv. og telja það, sem hún fer fram á, sanngirnisatriði, að bæir og kauptún geti fengið styrk í þessu skyni.

Þá er brtt. hv. 1. þm. N.-M. á þskj. 324. Hana getur nefndin ekki aðhylst. Hún er þeirrar skoðunar, að því ákvæði, sem síðast var samþykt um þetta, sje í hóf stilt, vegna þess að landsetar ríkissjóðs eiga ekki umbæturnar, heldur njóta aðeins ávaxta þeirra.

Þá hefir landbn. leyft sjer að koma fram með 2 brtt. á þskj. 366, um að í stað ákvæðisins um, að minst 10 menn óski eftir, að vjelar skuli keyptar, komi, að lögmætur fjelagsfundur samþ. Okkur þykir þetta fult eins tryggilega um búið.

Svo er þar önnur till., sem nefndin ber fram. Hún er um það, hve mikinn styrk hver einstakur bóndi fær. Er þar sett hámark, 300 kr. Við nánari athugun þótti nefndinni hyggilegra að binda það við eitthvert ákveðið hámark.

Þá er brtt. frá hv. þm. Mýr. og fleirum, á þskj. 384. Nefndin getur ekki fallist á að breyta svo 11. gr. Mjer finst, að fyrir þessum hv. flm. vaki það, að heppilegra sje, að hreppabúnaðarfjelögin haldi sínum styrk, svo að þeirra starfsemi skerðist ekki. Hv. þm. Mýr. sagði, að það myndi kippa fótum undan starfsemi þeirra á þessu sviði. Getur landbn. alls ekki fallist á þetta; hún getur ekki fallist á það, að búnaðarfjelög bænda úti um sveitir landsins standi á svo völtum fótum, að ef þeir ekki fái beinlínis ánafnað svo sem fjóra aura á hvert dagsverk, sem þeir vinna, þá sje þeirra fjelagsskapur eyðilagður. Þetta lýsir svo mikilli vantrú á umbótum hjá bændum og þeirra starfsemi, að jeg held, að hv. þm. segi þetta ekki í alvöru. Það er líka á annan hátt tryggilegar um þetta búið, þar sem samkv. þessu frv. er svo frá gengið, að ef bændur vilja verða styrks aðnjótandi, þá verða þeir að halda búnaðarfjelagsskap uppi, og þó að víða sjeu bágbornar ástæður, þá þykir mjer það undarlegt, ef þessir fáu aurar á dagsverk geta verið það lífakkeri, sem haldi þessari starfsemi uppi.

Jeg veit, að þetta fje er notað til mismunandi hluta; þeir geta verið góðir og gagnlegir, en að gagnsemi þeirra verði meiri samkv. þeirri ráðstöfun, sem hv. flm. vill hafa, heldur en með því að afla mönnum verkfæra, því trúi jeg ekki, því að erfiðleikar til umbóta á jarðræktarsviðinu eru ávalt mestir hvað það snertir.

Hv. þm. Mýr. drap líka á, að þetta. mætti ekki draga úr starfsemi þessa fjelagsskapar, með því að kippa í burtu þessu fje. Jeg er alveg hissa á að heyra þetta, þegar þess er gætt, að eftir því sem jarðræktin vex, fer styrkurinn minkandi, og sum árin hefir hann ekki verið nema 4½ eyrir á dagsverk. En nú er ekki svo, að jeg vilji draga úr þessum styrk, heldur aðeins verja honum öðruvísi. En ef það á að draga úr framkvæmdum búnaðarfjelaganna að missa þennan litla styrk til annars, — mun það þá ekki hafa sömu áhrif að draga 1/10 hluta af jarðabótastyrknum og leggja það í þennan sjóð? Þetta kemur þannig í mótsögn hvað við annað hjá hv. flm., svo að þeir verða að leggjast eitthvað dýpra til þess að hnekkja rökum landbn. hvað þetta snertir.

Þá sagði hv. þm. (BÁ), að þeir, sem lengra væru komnir í jarðræktinni, mættu ekki telja eftir sjer að hjálpa hinum, sem skemra væru komnir. Þar skyldi maður ætla, að þessir hv. þm. hefðu fundið púðrið. En þeir ætla nú samt að taka einn tíunda hluta af þeim styrk, sem veittur er samkvæmt II. kafla jarðræktarlaganna, og það á að ganga jafnt yfir alla. En ef þeir, sem væru fyrir neðan t. d. 50 dagsverk, fengju meiri styrk, þá væri þó samræmi í þessu. Svo vil jeg benda hv. þm. á það, að ef þeir þykjast hafa fundið einhvern sjerstakan vinning í þessu, að með þessari aðferð leggist meira fje í verkfærasjóðinn, og þannig stuðlað meira að þessu, þá er enginn munur á því og sem verður eftir tillögum nefndarinnar. Styrkurinn til þessa sjóðs á að fara eftir tölu dagsverka, þannig að þeir, sem vinna mikið, leggja þannig ennþá meira í þennan sjóð. Sá, sem vinnur 500 dagsverk, leggur miklu meira fje fram heldur en hinn, sem ekki vinnur nema 10 dagsverk. Nei, hv. þm. Mýr. og þeir aðrir hv. þm., sem flytja þessa brtt., verða að koma með eitthvað meira máli sínu til stuðnings, svo að það verði nokkurt vit í henni. Það eina, sem þeir bera fram og sem þeir geta lagt mikið upp úr, ef þeim sýnist, en sem jeg mótmæli, er það, að starfsemi bænda sje það lífsnauðsyn að fá þessar 15000 kr. En það er svo lítilsverð ástæða, að jeg met hana einskis, tel hana hneyksli fyrir bændur.

Svo er fleira, sem mjer þykir miklu ver um búið, m. a. það, að þeir vilja stofna einn allsherjarsjóð, sem menn eigi að fá styrk úr til þess að afla sjer verkfæra, og leggi sá, er kaupir, helming fram, en sjóðurinn hinn helminginn. Eftir hverju á nú að fara um þessa úthlutun? Jeg býst ekki við, að hægt verði að leggja annað til grundvallar en á hvaða tíma umsókn kemur, og verði því að afgreiða þær eftir þeirri röð, sem þær berast Búnaðarfjelagi Íslands. En þetta kæmi ójafnt niður. Samkvæmt okkar tillögum á að jafna niður hlutfallslega á fjelögin því, sem hægt verður að verja til kaupanna, og það þykir mjer miklu sanngjarnara, því að þá dreifist hjálpin um bygðir landsins, eftir því sem þörfin er fyrir verkfæri. Jeg verð því að halda því fram, að þessir hv. þm, hafi ekki mikinn skilning á þessu máli, ef þeir halda, að bændurnir geti ekki lagt fram með frjálsu móti af sínum eigin jarðabótastyrk til sinna fjelagsþarfa. Það verður, held jeg, ekki nein risavaxin upphæð, sem á hvert búnaðarfjelag kemur af þessum 15 þús. kr. Þeir ættu að standa sig miklu betur við það, ef þeir fá jarðabótastyrkinn ósnertan, og þar að auki þar sem eftir okkar tillögum er miklu betur um það búið, að þetta komi þeim að notum, sem helst þurfa þess við.

Jeg vænti þess vegna, að hv. deild samþykki þær brtt., sem landbn. ber nú fram við greinina, en geri ekki frekari breytingar á henni heldur en orðið er. Jeg held, að það sje áreiðanlega sú besta lausn á þessu máli, sem á verður kosið, og jeg er ekki í neinum vafa um það, að verði þessi brtt. hv. þm. Mýr. og meðflutningsmanna hans samþykt, þá verður það til að stórspilla frv. í heild sinni. Fyrir verkfærastyrknum verður miklu ver sjeð og hann nær síður tilgangi sínum. Það myndi verða fremur til þess að miklu minna gagn yrði að sjóðnum. Jeg held því, að hv. flm. gerðu best í því að taka þessa brtt. sína aftur, því að hún er áreiðanlega á misskilningi bygð.