05.03.1928
Neðri deild: 39. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1945 í B-deild Alþingistíðinda. (955)

29. mál, jarðræktarlög

Haraldur Guðmundsson:

Jeg á brtt. á þskj. 310, en hv. þm. Mýr. hefir tekið af mjer ómakið að segja nokkuð verulegt um hana. Jeg lít svo á, að jarðræktarlögin sjeu sett til þess að styðja hið mikla velferðar- og þjóðþrifamál, aukna ræktun, en verð auðvitað að beygja mig fyrir skýringu hæstv. forsrh., að kaupstaðirnir geti ekki orðið aðnjótandi styrks eftir þeim. Tilgangur laganna hlýtur þó upphaflega að hafa verið sá, að styðja að aukinni jarðrækt hvar sem væri og án tillits til þess, hver jarðabæturnar lætur gera. Heldur miða við það eitt, hvað mikið væri unnið, án tillits til þess, hvort unnið væri af einstaklingi, fjelagi eða bæjarfjelagi.

Í frv. því, er nú liggur fyrir þinginu um byggingar- og landnámssjóð, og sem er af svipuðum toga spunnið, er í 2. gr. gert ráð fyrir því, að lán úr þessum sjóði verði veitt til nauðsynlegra bygginga á kúabúum, er bæjarfjelög kynnu að koma upp, og er þeim því þar ætlað að njóta sama rjettar og einstaklingum. Enda er óvíða meiri ástæða til þess að auka ræktun heldur en einmitt í nágrenni kaupstaðanna, og liggja aðallega til þess tvær ástæður. Í fyrsta lagi þurfa bæirnir mjög á mjólk að halda, og í öðru lagi fellur þar til mjög mikið af fiskiúrgangi, sem er ágætur áburður, jafnt á ræktað land og til nýræktar.

Hv. þm. hjelt því fram, að minni ástæða væri til þess að leggja bæjunum til fje, því þar borgaði sig fyr og betur að rækta, en jeg tel, að það sje því sjálfsagðara að veita þeim styrk, þar sem sjálfsagt er að byrja fyrst þar á ræktun, sem hún borgar sig fyrst og best. Það er nú farið að tíðkast meira en verið hefir, að bæjarfjelög taki land til ræktunar, og má í því sambandi benda á tvær leiðir, er fara mætti. Önnur er sú, að landinu sje strax skift á milli einstaklinga og þeir rækti það síðan hver fyrir sig eða í fjelagi, eða þá, sjerstaklega þar sem um stórar landspildur er að ræða, að bæjarfjelögin annist ræktunina til að byrja með, en úthluti síðan einstaklingum spildur til þess að rækta þær til fulls, ef þá bæjarfjelagið sjálft ekki fullræktar þær og hagnýtir. En hvort heldur sem er, þá er ekki ástæða til annars en að sami styrkur sje veittur í báðum þessum tilfellum eins og sveitamenn fá. Það mun sennilega fara í vöxt, að kaupstaðirnir rækti sjálfir landið til fulls og reki þar síðan kúabú o. fl., eins og einn kaupstaður hefir þegar gert. Kaupstöðunum er yfirleitt hin mesta nauðsyn að hafa ræktað land kringum sig, og verður það æ meiri nauðsyn, eftir því sem atvinnuvegir þar að öðru leyti verða einhæfari. Um a-lið tillögunnar er það að segja, að hann er í beinu sambandi við hinn lið till. og hlýtur því að standa og falla með honum.