06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (968)

29. mál, jarðræktarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg hefi verið bundinn við umr. í Ed., og hefi því ekki átt kost á að hlusta á þær umr., er fram hafa farið hjer um þetta mál.

Jeg get þó lýst ánægju minni yfir því, að samkomulag hefir náðst um skipulag verkfærakaupasjóðsins, og einnig að allir eru sammála um að setja hámark fyrir styrk til hvers einstaks bónda. En jeg er ekki eins ánægður með það, að verkefni sjóðsins hefir ekki verið gert nógu þröngt, þar sem ætlast er til, að hann taki bæði yfir heyvinnuvjelar og meiri háttar jarðyrkjuvjelar. Jeg hefði kosið, að þessum verkfærasjóði hefði verið beint sem mest að jarðræktinni, því að hana tel jeg undirstöðu búnaðarframfara. Jeg mun því sennilega gera tilraun til að fá þetta lagað hjá landbn. Ed.

Um aðrar till., er fram hafa komið, er það að segja, að jeg mun greiða atkv. með till. á þskj. 310, frá hv. þm. Ísaf. og hv. þm. V.-Sk. Jeg lít svo á, að lögin eigi ekki hvað síst að styðja aukna ræktun kringum kauptún landsins. Þar er oft mjólkurskortur og því einatt brýnust þörf fyrir, að landið sje ræktað. — Jeg sje, að hv. þm. Barð. hristir höfuðið. Ef það á að þýða það, að honum finnist lítil þörf á þessu, þá vil jeg beina þeirri spurningu til bóndans í Haga, hvort hann hefir ekki eins og jeg sjeð hundruðum þúsunda fleygt í sjóinn og hvort honum finnist þá til of mikils mælst, þótt dálítilli upphæð væri varið í þessu augnamiði til ræktunar.

Jeg er alveg sammála hv. 1. þm. Reykv. um það, að ekki megi draga úr þeirri hvöt, sem þessi styrkur felur í sjer til umbóta á jörðum, sem eru eign þess opinbera. Prestssetrin eru víða langt á eftir öðrum jörðum um endurbætur. Venjulega eru þetta bestu jarðirnar, og mjer finst, að það hvíli rík skylda á því opinbera að stuðla að því, að þær verði gerðar aðlaðandi og bættar svo, að þær verði þjóðinni til sóma.