29.02.1928
Neðri deild: 35. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í B-deild Alþingistíðinda. (97)

1. mál, fjárlög 1929

Sigurjón Á. Ólafsson:

Það er áður sannað og sýnt, að atvinnubótastyrkur hæstv. stjórnar var ekki pólitískur bitlingur. Bæjarstjórn hefir að vísu ekki lagt fram fje á móti. En það stafar ekki af því, að þörfina, vanti. Það stafar af íhaldsþröngsýninni í bæjarstjórn. Jeg hefi það frá fátækrafulltrúunum, að meiri fátækrastyrkur hafi verið veittur nú en í fyrra, þegar atvinnubæturnar voru. Sparnaðurinn af því að leggja ekki út í atvinnubæturnar kemur þannig aftur fram í auknum styrk til fátækraframfæris. M. ö. o.: það er enginn sparnaður að láta ekki vinna. — Jeg skal og benda á það, að áður hefir landsstjórnin hafist handa um atvinnubætur án þess að bæjarstjórn kæmi þar nærri. Það var árið 1918. (PO: Það var víst „Hafnarfjarðarvegurinn“, sællar minningar).

Að lokum vil jeg segja það, að það er dálítið broslegt að vera að gera að umtalsefni 10 þús. kr. styrk, sem e. t. v. verður ekki notaður að fullu, til bláfátækra verkamanna, til að seðja hungur kvenna þeirra og barna. Jeg segi, að það sje ósæmilegt af stuðningsmönnum þeirrar stjórnar, sem ljet tugi þúsunda renna til einstakra manna, hreina og beina bitlinga, og það stundum fyrir lítil störf, að vera að gera umtal út af öðru eins og þessu og hefja árás á landsstjórnina fyrir það. Jeg skoða það í raun og veru árás á verkamennina sjálfa, og því aðeins hefi jeg blandað mjer í þessar umræður.