06.03.1928
Neðri deild: 40. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

29. mál, jarðræktarlög

Halldór Stefánsson:

Það hefir blossað upp alleinkennilega áhugi 2–3 hv. þm. fyrir hag landseta hins opinbera, sem þeir telja, að verði illa úti eftir þessari brtt. minni. Þessum hv. þm. hefir nú verið bent á það af hv. 1. þm. S.-M., að þessi skoðun þeirra er bygð á misskilningi. Finst mjer og ekki skýr hugsun í því að ætlast annarsvegar til þess, að jarðirnar hækki endalaust í verði fyrir þessar framkvæmdir, en hinsvegar, að afgjaldið hækkaði ekki nema fyrir höpp og hending. Það verður að byggja á því — sem rjett er —, að jarðabæturnar gefi þeim, sem framkvæma þær, fljótlega nokkurn arð. Má meðal annars benda á það, að á því eru bygð ákvæði ræktunarsjóðs um lánstíma til jarðabótaframkvæmda til 5–10 ára. Byggjast þau á því, að á þeim tíma hafi jarðabæturnar borgað þeim sjálfum, er að þeim unnu, fullan arð. Til þess að sýna, hve sú regla, að leggja landskuldina við verð jarðanna í það óendanlega, er fráleit, vil jeg benda á, hvernig þetta lítur út, ef sú hugsun að leggja landskuldina við í sífellu er færð út að fullu um langan tíma. Vil jeg taka dæmi. Setjum svo, að jarðirnar sjeu bygðar gegn 4% afgjaldi og ábúandi vinni landskuldina af sjer að fullu, þá ættu jarðirnar að tvöfaldast í verði á 16–17 árum, eða ca. 6 sinnum á öld. Þá væri 10 þús. kr. jörð orðin 320 þús. kr. eftir öldina. Hver myndi vilja búa á jörðinni eftir það með tilsvarandi afgjaldi? Þetta dæmi sýnir, hversu till. nefndarinnar eru fráleitar. Það verður að vera eitthvert skynsamlegt hóf á hlutunum.