24.03.1928
Efri deild: 56. fundur, 40. löggjafarþing.
Sjá dálk 1970 í B-deild Alþingistíðinda. (981)

29. mál, jarðræktarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Jeg vil leyfa mjer að þakka hv. landbn. fyrir skjóta og góða afgreiðslu þessa máls. Jeg tel víst, að frv. nái fram að ganga og tel það munu verða til mikilla framfara fyrir landbúnaðinn á mörgum sviðum.

Um brtt. get jeg verið fáorður. Jeg get fallist á tvær fyrstu brtt., þó að segja mætti, að þær væru í raun og veru brot á „principi“ laganna. Ef ræktunin er þjóðnýtt verk, þá er rjett að styrkja hana, hversu stórfeld sem hún er, en takmarka ekki styrkinn. En jeg skal ekki stofna til ágreinings um þetta atriði.

4. brtt., um verkfærakaupasjóðinn, er jeg nefndinni þakklátur fyrir. Breytingarnar miða yfirleitt í þá átt að færa frv. nær því eins og það var, er það kom frá stj. Mjer þykir vænt um þá till. nefndarinnar að þrengja starfssvið sjóðsins, binda það við hestaverkfæri til jarðyrkju. Eins og frv. kom frá Nd. voru heyvinnuvjelar nefndar við hlið þeim, og einnig gátu dráttarvjelar komið til mála. Nú eru heyvinnuvjelar útilokaðar. Jeg er alveg sammála nefndinni í því, að það verður að sitja fyrir að hjálpa mönnum til að eignast hestaverkfæri til jarðyrkju. Verkefnin, sem fyrir höndum eru, eru svo mikil, að ekki mun af veita að ætla til þeirra svo sem hjer er gert ráð fyrir. Það er til annar sjóður, sem ætti að geta hjálpað til að kaupa jarðræktarvjelar.

Enn er jeg þakklátur hv. nefnd fyrir 5, brtt., sem hún flutti samkvæmt minni ósk. Það hefði orðið erfitt fyrir Búnaðarfjelag Íslands og stj. að framkvæma lögin, ef þetta ákvæði vantaði. Er hætt við, að framkvæmd laganna mundi eitthvað blandast málum, ef ekki er bundið við þann tíma, sem mæling jarðabótanna fer fram á.

Jeg hefi átt tal við hv. landbn. í Nd. Líta þeir svo á, að landbn. Nd. gæti gengið að þessum breytingum. Jeg hika því ekki við, þótt nú sje liðið á þingtímann, að ráðleggja háttv. deild að samþykkja breytingar háttv. nefndar, því að jeg geri fastlega ráð fyrir, að þær sæti ekki andstöðu í Nd.