14.05.1929
Neðri deild: 68. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2254 í B-deild Alþingistíðinda. (1006)

101. mál, póstmál og símamál

Frsm. meiri hl. (Hannes Jónsson):

Jeg ætla þá að byrja á þeim stóru nöfnum ráðherra og ráðuneyti. Það hafa orðið allmiklar umr. um þetta efni, hvort póstmeistari og landssímastjóri ættu að heyra undir ráðherrann beint, eða undir ráðuneytið. Hv. 1. þm. Skagf. fjelst á skoðun mína að nokkru í þessu efni, en að nokkru á skoðun annara andstæðinga minna, svo að hv. þm. er skiftur á milli okkar í því máli. Hv. þm. hjelt því fram, að afstaða landssímastjóra væri engin önnur heldur en afstaða t. d. vegamálastjóra. Þetta hafði jeg líka bent á, og jeg hafði haldið því fram, að svo gæti einnig verið með póstmálastjórann. En þar hafa þeir hv. 1. þm. Skagf. og hv. 2. þm. Rang. fært þær ástæður á móti skoðun minni, að þetta væri svo mikið og margháttað embætti og þessi maður hefði svo mikil viðskifti og sambönd við útlönd, að þetta ætti að vera mjög áberandi staða.

Nú vil jeg benda þessum hv. þm. á það, að þessi brjefaviðskifti geta farið fram án þess að þurfa að ganga í gegnum ráðuneytið, sem sagt, ráðh. getur ákveðið, að póstmálastjóri annist slíkar brjefaskriftir án þess að til ráðuneytisins komi, og á þennan hátt hygg jeg, að hægt væri að takmarka svo þær brjefaskriftir, sem þyrftu að fara á milli póstmálastjóra og ráðuneytisins, að enginn verulegur trafali ætti að verða af.

Hv. 1. þm. Skagf. kallaði þessi viðskifti póstmálastjóra og skrifstofunnar óþarfa hringsól, sem hann ekki vissi hvað ætti að þýða. Auðvitað gæti maður sagt eitthvað svipað um vegamálastjóra, vitamálastjóra og alla okkar stjóra. Það væri sjálfsagt gott að láta skrifstofuna losna við öll þessi afskifti. En jeg hefi bent á það, að miklar ástæður væru fyrir hendi, þar sem þessir tveir forstjórar, landssímastjóri og póstmálastjóri, eiga að gera sameiginlegar uppástungur um þessi mál, þá er eðlilegt, að báðir geri þessar till. til ráðuneytisins og það afgr. þær til ráðh., sem síðar tekur sínar ákvarðanir, bygðar á till. þessara manna. Annars verður varla hjá því komist, að annarhvor forstjóranna yrði settur eitthvað hærra en hinn.

Jeg vænti nú, að hv. þdm. fallist á skoðanir okkar hv. 1. þm. Skagf. um það, að ónauðsynlegt sje að taka landssímastjórann undan skrifstofunni, og svo í sambandi við það og framhaldi þar af, ef hægt væri að láta póstmálastjóra annast þessi helstu brjefaviðskifti, þá væru sömu ástæður fyrir hendi til þess að hann væri undir ráðuneytinu, en ekki ráðh.

Það voru ýmsir hv. þdm., sem höfðu haldið því fram, að við þetta fyrirkomulag yrði enginn sparnaður, t. d. hv. 1. þm. Skagf., hv. þm. Vestm. og jeg held hv. þm. Barð. Hv 1. þm. Skagf. og hv. þm. Vestm. virtust báðir vera mjög trúaðir á það, að jeg hefði þá skoðun á útreikningunum, sem fylgja frv., að engan sparnað leiddi af sameiningunni. Jeg held, að jeg hafi aldrei sagt neitt, sem ástæða væri til að byggja á þessa skoðun. Hitt sagði jeg, að þótt enginn sparnaður yrði að því í svipinn, þá væri engu síður ástæða til að taka þetta fyrirkomulag upp, ef sýnt yrði með rökum fram á það, að hjer þyrfti ekki að auka útgjöldin, þótt svo væri yfirleitt, að launagreiðslur hækkuðu, enda hygg jeg að slíkt vaki fyrir öllum, sem um sameiningu embætta hafa hugsað og ritað, að með því væri mönnum gert hægra fyrir, án þess þó að ríkissjóður borgaði hærra fyrir slík störf.

Þeir hv. þdm., sem talað hafa í þessu máli, virðast bera mjög fyrir brjósti þá hættu, að störf kunni að verða tekin af stöku mönnum. Jeg skal játa það, að í þessu efni verður að fara gætilega, og það er alls ekki svo, að fyrir mjer vaki, að þessari breyt. sje dembt á í einu. Það geta verið mjög mismunandi ástæður til, hvort eigi á hinum ýmsu stöðum að koma starfinu í þetta horf strax eða svo fljótt sem unt er. Annars er jeg hræddur um, að það gangi seint hjá okkur að koma þeirri stefnu á í framkvæmdum að sameina störf, sem ríkið þarf að borga fyrir, ef altaf er hugsað um það, að aldrei megi taka neitt starf frá einum og leggja undir annan, þegar altaf er bætt við nýjum störfum, sem ríkið verður að borga, og ef öllum er haldið við, þá fjölgar þetta smátt og smátt, svo að ekki verður við unað. Það er auðvitað æskilegt, að helst allir meðlimir þjóðarinnar geti verið á góðum launum hjá ríkissjóði, en slíkt getur náttúrlega ekki gengið, og svo margir geta hinir launuðu menn verið, að fullkomið ósamræmi sje, samanborið við fólksfjölda, og gjaldgetu ríkissjóðs ofboðið, því að mjer dylst það ekki, að eftir þeirri stefnu, sem fram hefir komið hjer á þingi, þá verður greiðsla fyrir störf í þágu hins opinbera stöðugt aukin. Það er altaf sagt, að mennirnir sjeu bundnir við þessi störf, að þeir geti ekki ráðið sig í aðra vinnu, sem líka sje mjög óheppilegt, að starfsmenn hins opinbera geri, og verði þeir því að fá svo fyrir vinnu sína, að þeir geti lifað sómasamlega af þeim launum. Því hefir verið haldið fram hjer, sjerstaklega af hv. þm. N.-Ísf., að sumir þessara manna væru svo hlaðnir störfum, að þeir gætu ekki við sig bætt, og þar fyrir væri sameining óhugsandi. Jeg get nú búist við, að flestir starfsmenn þjóðarinnar þykist svo hlaðnir störfum fyrir þau laun, sem þeir hafa, að þeir ekki þykist geta bætt við sig. En ef það getur gengið, að þessir embættismenn vinni svo og svo mikið utan síns embættis, jafnvel svo, að þeir fái meira fyrir þau heldur en það, sem þeir vinna fyrir ríkið, þá held jeg að þeir ættu að geta lagt fram alla starfskrafta sína fyrir ríkið. Mjer finst, að það í flestum tilfellum verði miklu hagkvæmara fyrir þá heldur en að skifta þeim milli tveggja eða fleiri. (JJós: Þetta verður heldur torskilið). Það getur vel verið, að jeg tali ekki nógu ljóst, en það getur líka vel verið, að hv. þm. Vestm. vilji ekki skilja. En jeg vil taka það fram, að aukin störf hljóta að koma með sameiningu starfanna, og ef því er slegið föstu, að einn eða annar flokkur starfsmanna geti ekki bætt á sig störfum, þá skal það viðurkent, að þar er sameining ómöguleg.

Hv. þm. Dal. sagði, að hann hefði borið fram till. um þetta áður; þá hefði hann álitið, að þetta væri hægt, og sjerstaklega álitið, að hægt væri að sameina póst og síma.

Hv. þm. Vestm. spurði eitthvað á þá leið, hvort jeg vildi ganga inn á þessa sameiningu, þótt enginn sparnaður hlytist af því. Jeg verð að segja það, að þetta er tvíræð spurning, en jeg get þó svarað því, að jeg myndi telja vafasamt, hvort rjett væri að gera það, ef enginn sparnaður hlytist af því. Á jeg þar ekki einungis við þann sparnað, sem fæst í augnablikinu, heldur líka þann sparnað, sem fæst með því að þurfa ekki að auka kostnaðinn í framtíðinni.

Þá sagði hv. þm., að óþægindi leiddi af sameiningunni. Jeg get ekki sjeð, hver óþægindi eru t. d. við það að fá sig afgreiddan á sama stað með tvent í einu. Það er t. d. ekki hægt að senda símaávísun nema með því að ná til hvorstveggja, síma og pósts.

Það voru þeir hv. 4. þm. Reykv. og hv. þm. Barð., sem töldu það nauðsynlegt, að maðurinn, sem tæki þessi störf að sjer, hefði verið í þjónustu landssímans tvö ár, og jeg held, að það hafi verið hv. þm. Barð., sem sló því föstu, að jeg teldi alls ekki nauðsynlegt, að þessi maður hefði þekkingu á þessum málum. Jeg var búinn að segja það, og það stendur líka í frv., að maðurinn á að hafa ákveðna þekkingu í þessum málum, en hitt taldi jeg aukaatriði, hvort hann hefði starfað eitt ár eða tvö eða lengur við þetta áður; það færi mest eftir því, hvort maðurinn væri hæfur eða ekki. Í þessu sambandi vil jeg benda á það, að jeg hygg, að póstafgreiðslumaðurinn á Akureyri hafi starfað mjög skamma stund við póstafgreiðsluna, þegar hann var gerður að póstmeistara. Það sýnir það, að þessi störf krefja ekki svo stórkostlega mikillar þekkingar eða sjerstakra sjerhæfileika, heldur miklu frekar hitt, að maðurinn sje samviskusamur og duglegur, enda var þessi maður sjerlega duglegur, komst fljótt inn í störfin og gat fljótt tekið þetta ábyrgðarmikla starf að sjer. Jeg játa það, að nauðsynlegt er, að þessi maður sje sem best að sjer, en það er ekki rjettur mælikvarði á því, hvort hann hefir unnið lengi hjá þessari eða hinni stofnuninni.

Þá hafa nokkrir hv. þm. minst á það, að í þessu efni þyrfti engin sjerstök lög, af því að til væri heimild um það að sameina það af þessum störfum, sem betur þætti fara. Jeg hafði áður bent á, að það myndi tefja fyrir sameiningunni, ef ekki væru til lög um þetta, og a. m. k. er reynslan sú, að þetta hefir gengið mjög treglega.

Þá beindi hv. 1. þm. Skagf. einum tveim fyrirspurnum til mín. önnur var um það, hvernig myndi verða farið að þar, sem sveitarfjelög hefðu lagt fram til símans. Jeg hygg, að þessu sje ósköp auðsvarað. Það verður látið sitja við það, sem verið hefir. Þau hreppsfjelög, sem hafa gert samning við símann, verða auðvitað að standa við þann samning, og síminn sömuleiðis. Það verður ekki hróflað neinu í því efni og jeg geri ekki ráð fyrir, að hlutaðeigandi sveitarfjelög verði neitt ósæmd af því að standa við þá samninga, sem þau hafa gert.

Þá spurði hv. 1. þm. Skagf. mig um það, hvernig jeg myndi taka brtt. um það efni, að stöðum þessum yrði ekki ráðstafað fyr en önnurhvor þeirra losnaði. Jeg er óviðbúinn að athuga þetta nú, en skal ræða þetta við hv. þm. nú fyrir 3. umr., ef hann teldi nokkurs virði að ná samkomulagi við mig um þetta atriði. En jeg tel það allhæpið að hafa nokkuð fastákveðið um það, að ekki skuli nægja að hafa annaðhvort laust, því að það getur þurft að skipa í annað embættið áður, þótt í flestum tilfellum ætti að fylgja þeirri reglu að sameina ekki fyr en annarhvor gengi frá. Jeg vil að sjálfsögðu ekki setja nein skilyrði í þessu efni, en hinsvegar er það mjög hæpið að láta það sitja fyrir sjálfsögðum endurbótum, þótt eitthvað lítilsháttar dragist frá einum starfsmanni og færist til annars.

Hv. þm. Barð. mintist á það, að þeir hv. 1. þm. Skagf. og hann hefðu lagt á móti frv. (HK: Jeg taldi það óþarft). En jeg skildi svo afstöðu þessara hv. þm. til frv., að þeir teldu ýmislegt í því vera til bóta, þó að þá greindi á um ýms atriði, og sem jeg held að jeg hafi tekið fram í fyrstu ræðu minni.

Þá var það hv. 1. þm. Skagf., sem gekk nokkuð langt inn á þá braut að ræða það fylgirit, sem er með þessu frv., um póstgöngur hjer á landi.

Jeg hafði áður tekið fram, að jeg teldi, að það lægi ekki fyrir til umr., því það kæmi frv. ekkert við. Jeg hefi líka drepið á, að jeg væri ekki samþykkur ýmsu í því skrifi og fært þar til a. m. k. eina póstleið. Jeg nefndi hana sem dæmi, en jeg vil ekki ræða það mál hjer, því það er fjarskylt því, er hjer liggur fyrir. Jeg geri ráð fyrir, að ef það mál verður á sínum tíma lagt fyrir þingið, þá muni jeg láta mína skoðun á því í ljós. En ef það þarf ekki að koma fyrir þingið og stj. getur komið því skipulagi á póstgöngurnar, er hún telur heppilegast, þá er þýðingarlaust að vera að ræða það þjer. Enda býst jeg við, ef ítarlega verður farið út í það, þá muni það taka óhæfilega langan tíma. Jeg hefi litið svo á, að því væri þetta prentað með frv., að menn fengju sjeð, í hverju starf n. var fólgið, og í öðru lagi til þess að almenningur fengi að kynna sjer till. hennar áður en þeim væri að einhverju eða öllu leyti komið í framkvæmd. Auðvitað hefði eins mátt prenta þetta sjerstakt, en mjer finst það skifta æðilitlu máli, á hvern hátt það er gert.

Hv. þm. Vestm. var að finna að nefndafarganinu, Sem hann svo kallaði, en það, sem einkennilegast var, var það, að hann var óánægðastur yfir því, hve n. hafði leyst störf sín fljótt af hendi. Einhverjum söng hefði líka mátt búast við frá íhaldinu, ef n. hefði verið lengi með störf sín. Það fer satt að segja að verða erfitt fyrir nefndir að starfa, ef þær mega hvorki vera fljótar með störf sín nje seinar. Jeg fyrir mitt leyti held, að n. sjeu því betri því duglegri sem þær eru. Hv. þm. hjelt því fram, að ekki væri svo vel gengið frá nál. sem skyldi. Það er nú svo með n., að þær hafa yfirleitt lítið hrós fengið fyrir störf sín. A. m. k. man jeg til þess, að launan. 1919 fjekk æðilítið hrós.

Jeg skal ekki teygja umr. um of. Jeg hefi ekki gert það og ekki þurft þess, því þó margir hafi andmælt, þá hafa þó margir vikið að sömu atriðunum. Get jeg því látið þetta nægja og mun ekki fjölyrða um það frekar.

Jeg mun að sjálfsögðu hlíta leiðbeiningum mjer fróðari manna og get gjarnan borið mig saman við hv. 1. þm. Skagf. fyrir 8. umr. En þar sem flest mun nú fram komið, sem ágreiningur er um, þá ættu menn að geta beðið rólegir með umr. til 3. umr. Þar sem hv. 1. þm. Skagf. hefir ekki heitið neinu góðu þá, má búast við, að þar gefist tækifæri til að ræða málið enn nánar.

Hv. 1. þm. Skagf. gat þess, að hann vissi, af hvaða ástæðum frv. þetta væri borið fram. Jeg hafði nú haldið, að frv. væru yfirleitt borin fram til að bæta ástand það, sem nú er, og þetta frv. þá sjerstaklega til að gera ríkinu kleift að borga starfsmönnum sínum viðunanleg laun án verulegs útgjaldaauka.