14.05.1929
Neðri deild: 68. fundur, 41. löggjafarþing.
Sjá dálk 2262 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

101. mál, póstmál og símamál

Magnús Guðmundsson:

Jeg mun verða stuttorður, því hv. frsm. talaði svo hóglega, og vil jeg svara honum í sama tón.

Hann kvaðst ekki skilja, hvers vegna aðrar reglur þyrftu að gilda um póstmeistara en landssímastjóra. Því gerði jeg grein fyrir; það er vegna hinna miklu viðskifta, er póstmálastjórnin hefir við útlönd. Þetta er rjettmæt ástæða, en hv. þm. þekkir ekki eins vel inn á þetta og jeg. Jeg hefi starfað í atvmrn. í 10 ár og veit því, að standi ekki póstmálastjóri beint undir ráðh., þá senda erlendar póststjórnir brjef sín beint til stjórnarráðsins, því það er viðtekin regla, að stjórnarráð skrifa einungis til stjórnarráða eða deilda úr þeim.

Jeg er sammála hv. þm. í því, að rjett sje að gæta þess sparnaðar í þessum málum, sem hægt er. Jeg er ekki mótfallinn sameiningunni, ef hún er ekki framkvæmd í einum rykk og menn ekki reknir úr stöðum sínum, þeim til stórskaða en ríkinu til einskis gagns. Hv. þm. sagðist heldur ekki ætlast til, að menn væru reknir úr embættum sínum, ef ríkið hefði til einskis að vinna. Erum við því sammála í þessu efni. Og jeg get skilið, að hann treysti stj. til allrar sanngirni í þessum efnum, en þar er jeg efablandinn og þykist geta borið fyrir mig reynslu þá, sem á er komin.

Hv. þm. gekk út frá því að embættismenn gætu yfirleitt annað meiru en þeir gerðu, því þeir tækju að sjer allskonar aukastörf. Alt þetta tal um aukastörf embættismanna, mun vera sprottið af aukastörfum þeim, er skrifstofustjórar stjórnarráðsins hafa, og er orðinn siður og hefir verið síðan 1904. Er jeg efins í, að hægt verði að koma því lagi af nema með því að hækka laun þeirra verulega. En við hitt má að sjálfsögðu ekki miða, þegar menn fara úr embætti sínu um stundarsakir til þess að gegna aukastörfum, en láta aðra gegna störfum embættisins. T. d. væri ekki rjett að telja sýslumann Árnesinga hafa of lítið að gera í embætti sínu, þó hann sitji á þingi fjórða hluta árs.

Hv. þm. sagði, að ekki mundi verða hróflað við þeim samningum, er nú giltu um framlög sveitarfjelaga til síma, meðan þeir stæðu. Það var jeg ekki að spyrja um. En jeg spurði um það, hvernig færi eftir þau 5 ár, er samningurinn væri úti, og koma ætti á sameiningu pósts og síma. Jeg er efins í, að þegar samningstíminn er á enda og búið er að sameina póst og síma, að þá verði hlutaðeigandi sveitarstjórnir viljugar á að leggja fram fje til símans. Jeg tala um þetta, því það hefir komið fyrir áður. Á Blönduósi varð einusinni að loka símastöðinni í nokkra daga, vegna þess að sveitarstjórnin neitaði að leggja fram fje.

Hv. þm. lofaði, að hann skyldi bera sig saman við mig fyrir 3. umr. og tók ekki af um, að nást mundi samkomulag. Þetta þótti mjer vænt um að heyra, og bíð jeg eftir að hv. þm. komi og ræði málið við mig. Hann sagðist ekki vera með því að reka menn frá starfi sínu nema það stæði fyrir sjálfsögðum endurbótum. Jeg er ánægður með þetta svar.

Þá mintist hv. þm. á, að póstgöngur á landi væru ekki hjer til umr. En hvers vegna voru till. póstmálan. lagðar fram með frv., ef ekki var ætlast til, að þær væru ræddar? Hingað til hefir það verið álitið, að ríkisstj. væri einráð um póstleiðir innanlands. Ef svo er, þá er hægt að smella þessu fyrirkomulagi á án þess að spyrja Alþingi. Því vildi jeg ekki láta till. ómótmælt hvað mitt kjördæmi snertir. Jeg segi fyrir mig, að jeg vil ógjarnan, að komið verði á eftir og sagt, að till. hafi legið fyrir þinginu, en þeim hafi ekki verið mótmælt. Því hafi verið litið svo á, að óhætt væri að taka þær upp. En svo mun mörgum fara, er les till., að hann verður ekki ánægður fyrir sitt kjördæmi. Þetta hefir komið fram bæði hjá mjer og hv. þm. N.-Þ. og hv. þm. Barð. Þeir hafa sýnt fram á, að till. eru ómögulegar í þeirra hjeruðum. En þegar svo er komið, þá er það sönnun þess, að till. eru ærið gallaðar.

Jeg vil því segja hv. þm., að ekki er nóg, að okkur komi saman um að leggja ekki niður póstleiðir um Holtavörðuheiði og Hrútafjarðarháls. Jeg nefndi þessar tvær leiðir af því þær snerta hann mest. En það eru aðrar leiðir, er ekki snerta mig síður, t. d. Vatnsskarð. Og jeg vona, að hv. þm. geti teygt sig svo, að hann nái norður á Vatnsskarð. (HJ: Jeg skal teygja mig alla leið norður á Akureyri!). Jæja, það er gott, en þó ekki nóg. Jeg er viss um, að við það verður aldrei unað, að leggja niður póstferðir milli sveita.

Hv. þm. talaði um, að nefndir fengju sjaldnast hrós. Það má vel vera, en það er ekki von, að n. fái hrós fyrir störf sem þessi. Auk þess sem það úir og grúir af vitleysum í till. hennar, er aðalniðurstaðan gersamlega röng.

Það er rjett, að nokkuð miklar umr. eru orðnar um frv. Skal jeg ekki teygja umr. lengur að sinni; ef ekki verður mögulegt samkomulag um málið við 3. umr., má taka upp þráðinn aftur.